06.10.2023

Föstudagsmolar forstjóra 6. október 2023.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
 
*40 ára afmæli lungnaendurhæfingar á Reykjalundi.
Eins og fram hefur komið fagnar lungnaendurhæfing hér á Reykjalundi 40 ára afmæli um þessar mundir. Það eru stórmerkileg tímamót og fróðlegt væri að vita hve margir hafa farið í gegnum þjónustu og meðferð hjá okkur á þessum tíma. Við höfum ákveðið að fagna þessu formlega fimmtudaginn 19. október með hátíðardagskrá sem hefst kl 14 í samkomusalnum okkar. Gaman væri að sjá ykkur sem flest þar en ef þið hafið ekki tök á að taka þátt í hátíðardagskránni sjálfri eruð þið velkomin að fagna með okkur í kaffiveitingunum sem verða bornar fram upp úr kl 15.
Það er lungnateymið okkar sem hefur haft veg og vanda af undirbúningnum og vil ég senda þeim bestu afmælis- og þakklætiskveðjur!
 
*Þakkir til starfsmannafélagsins!
Enn og aftur vil ég koma á framfæri þökkum til stjórnar starfsmannafélagsins okkar og öðrum stuðboltum sem þau aðstoða, fyrir flott starf í þágu okkar starfsfólks. Í september stóð starfsmannafélagið fyrir nokkrum uppákomum, þar sem okkur starfsfólki bauðst að fara í skemmtilega göngutúra um Reykjalundarsvæðið, ketilbjölluæfingar og ýmislegt fleira. Þetta náði svo hámarki á fjölsóttum haustfagnaði okkar á dögunum í Hlégarði þar sem við gæddum okkur á grilluðum hamborgurum, fórum í æsispennandi spurningakeppni, dönsuðum og áttum saman góða stund fram eftir kvöldi. Sannarlega ekki sjálfgefið að hafa svona samstarfsfólk á vinnustaðnum en fjöldi kannanna hefur sýnt fram á tengsl milli líðan og afkasta í vinnu við félagslíf á vinnustað. Því vil ég nota tækifærið og færa stjórn starfsmannafélagsins og öðrum sem komu að viðburðunum í september kærar þakklætiskveðjur. Við hlökkum svo bara til að heyra meira um dagskrá starfsmannafélagsins.
 
*Þingmenn og bæjarfulltrúar heimsækja Reykjalund
Í vikunni höfum við verið þess heiðurs aðnjótandi að fá nokkra þingmenn og bæjarfulltrúa í heimsókn hingað á Reykjalund. Markmið er að kynna fyrir þeim það merkilega og mikilvæga starf sem hér er unnið. Það er auðvitað ekki betri leið til að átta sig á starfinu hér en að koma í heimsókn og sjá hlutina af eigin raun. Það er ánægjulegt að þingmenn okkar séu tilbúnir að gefa sér tíma og koma hingað í Mosfellsbæinn en það gerir allt samtal auðveldara og skemmtilegra, hvort sem það er um endurhæfingu, hlutverk Reykjalundar eða bara heilbrigðismálin í heild.
Myndirnar með molunum í dag eru frá heimsóknum í vikunni. Annars vegar má sjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Bryndísi Haraldsdóttur, Óla Björn Kárason og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í hópi starfsmanna og læknanema á 6. ári sem hér voru einnig í heimsókn á sama tíma. Hins vegar voru það fulltrúar frá framsóknarflokkunum sem komu í dag en það voru þau Halla Karen Kristjánsdóttir og Sævar Birgisson bæjarfulltrúar ásamt þingmönnunum Ágústi Bjarna Garðarssyni og Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og Sigurjóni Jónssyni aðstoðarmanni heilbrigðisráðherra. Gestirnir í dag voru einmitt settir í danstíma með okkur starfsfólki og stóðu sig mjög vel.
Við þökkum þingmönnunum og bæjarfulltrúum kærlega fyrir komuna á Reykjalund!
 
Að lokum vil ég geta þeirrar ánægjulegu þróunar sem er að verða varðandi Grenásdeild Landspítala þessa dagana. Þar var í gær tekin fyrsta skóflustungan af nýrri og glæsilegri rúmlega fjögur þúsund fermetra viðbyggingu og í kvöld verður söfnunarþáttur í sjónvarpi fyrir deildina. Góðar kveðjur á Grensás!
 
Njótið helgarinnar!
 
Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka