29.09.2023

Föstudagsmolar forstjóra 29. september 2023 - Gestahöfundur er Helgi Kristjónsson.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Ég vil byrja á þakka stjórn starfsmannafélagsins okkar fyrir frábæran haustfagnað sem fram fór í Hlégarði í gærkvöldi. Ekki síður verður að þakka öllum þeim fjölmörgu sem mættu, fyrir mjög öfluga og fjöruga þátttöku. Heldur betur glæsilegt í alla staði. Það er ekki sjálfgefið að fólk sé tilbúið að leggja aukalega á sig til að undirbúa og sjá um hátíðir eins og þessa, sem og nokkra aðra skemmtilega viðburði undanfarna daga. Því á stjórn starfsmannafélagsins ásamt sérvöldu aðstoðarfólki, allar góðar þakkir skildar. Flott að hafa þessa skemmtun sem veganesti inn í helgina sem er framundan.
Meðfylgjandi eru molarnir þennan föstudaginn en það er Helgi Kristjónsson, framkvæmdastjóri rekstarsviðs, sem er gestahöndur í dag og býður okkur upp á áhugaverðan sögumola tengdan Reykjalundi. Það er vel við hæfi þar sem spurningar úr sögu Reykalundar virtust vera standa í einstaka fólki í spurningakeppni gærkvöldsins.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur
Pétur

***

Föstudagsmolar 29. september 2023.

Þau eru mörg og margvísleg verkefnin sem huga þarf að í starfi mínu á Reykjalundi í dagsins önn.
Sá ötuli og mæti maður Ólafur A. Hannesson, umsjónarmaður fasteigna á Reykjalundi, benti mér á um daginn að gamalt vatnsból á vegum Reykjalundar hefði orðið undir í baráttunni við náttúruöflin og stæði nú opið og væri líklega slysagildra fyrir menn og dýr sem væru á röltinu í hlíðum Reykjafells.
Vatnsból þetta var safnbrunnur fyrir kalt vatn sem veitt var með nokkur hundruð metra leiðslu í vatnstankinn góða austan þjálfunarhússins sem mætir menn og konur hafa sagt að gæti orðið stærsti blómapottur í heimi ef viljinn væri fyrir hendi.

Án þess að ég þekki sögu vatnsbólsins nógu vel þá finnst mér líklegt að staðsetningin á því beri hlýhug landeigenda á Suður-Reykjum í garð starfseminnar á Reykjalundi vitni. Vatnsbólið sá sjúklingum, gestum og starfsfólki Reykjalundar, sennilega nokkur hundruð manns, fyrir köldu vatni á hverjum degi í einhverja áratugi og var að öllum líkindum lagt af þegar Reykjalundur tengdist vatnsveitunni í Mosfellsbæ. Þetta er líklega merkilegra fyrirbrigði en í fyrstu sýnist, þarna hefur framtaksamt fólk byggt eins konar mínívatnsveitu lengst uppi í sveit til þess að starfsemin á Reykjalundi gæti þrifist.
Þegar ég fór að reyna að finna eitthvað á netinu um þessa vatnsveitu þá rakst ég ekki á neinar heimildir um hvenær hún var byggð, eða hvenær aflögð. Ég er svosem ekki sá slyngasti að gúggla á netinu og heldur ekki sá þolinmóðasti en ég fann heimild um svolítið annað.

Í örnefnaskrá sem heitir “Suður-Reykir örnefni á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ” á bls. 20 og 21 er sagt frá því að elsti hluti aðalbyggingar Reykjalundar er byggður ofan á svokölluðum Amsturdamshver. Vatnið úr þessum hver var víst notað til að hita upp verksmiðjuhús klæðaverksmiðjurnar að Álafossi fyrir rúmlega 100 árum. Sem er merkilegt í ljósi þess að stundum er óþarflega kalt í aðalbyggingunni hér á Reykjalundi.
Annað sem er merkilegt að mínu mati er gamla uppþornaða og aflagða heitavatnsborholan sem er undir bakbyggingunum sem tengja saman verksmiðjuskálana. Maður spyr sig hvað varð um allt heita vatnið, af hverju er Varmá köld, hvar er reykurinn sem staðurinn er kenndur við? Það er nú það, en hvað sem því líður þá hafa þeir Óli og Pálmi smiður þegar byrgt vatnsbólið sem nefnt er hér ofar.

Lifið heil,
Helgi Kristjónsson,
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

Til baka