22.09.2023

Föstudagsmolar forstjóra 22. september 2023.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Kveðjuboð fyrir samstarfsfólk okkar.
Eins og kynnt hefur verið eru fyrirsjáanlegar töluverðar breytingar á starfsmannahópnum okkar á næstu misserum. Rúmlega þriðjungur starfsfólks Reykjalundar er yfir 60 ára aldri og þar af töluverður fjöldi 65 ára og eldri. Vegna þessa er fyrirsjánanlegt á næstu árum að reglulega hætti hjá starfsmenn vegna aldurs. Við þetta bætast breytingar í starfsmannahópnum af hefðbundnum ástæðum eins og þekkist í öðrum fyrirtækjum og stofnunum.
Reykjalundur vill kveðja starfsfólk sitt með formlegum hætti, hvort sem starfslokin eru vegna aldurs eða fólk heldur í aðrar áttir og í gær hélt Reykjalundur fjölsótt kveðjuboð fyrir samstarfsfólk sem látið hefur af störfum á árinu. Á myndinni með molunum í dag má sjá heiðursgesti kveðjuboðsins í gær ásamt Guðbjörgu mannauðsstjóra og undirrituðum.
Um leið og við þökkum þessu heiðursfólki fyrir samstarfið og framlag þeirra til sögu Reykjalundar og endurhæfingar á Íslandi, óskum við þeim öllum velfarnaðar á nýjum slóðum.
Jafnframt vil ég þakka ykkur fyrir að fjölmenna í boðið í gær og vera með okkur að kveðja fyrrverandi samstarfsfólk okkar.

Um jólahald hér á Reykjalundi.
Þó nú séu aðeins tæpar 14 vikur til jóla er góður siður að gefa tímanlega út helstu dagsetningar varðandi jólahald hér á Reykalundi um næstu jól. Því kemur hér yfirlit yfir helstu atriði. Eins og venjulega er Hlein þó undantekning. Þar er ekki hægt að loka og því verður annar háttur hafður á varðandi jólagjafir til starfsfólks.

  • Jólalokun meðferðarstarfs 27.-29. desember 2023.

Ákveðið er að engin sjúklingavinna verði á Reykjalundi milli jóla og nýárs eða frá og með laugardeginum 23. desember til þriðjudagsins 2. janúar.

  • Jólagjöf Reykjalundar til starfsfólks.

Jólagjöf Reykjalundar til starfsfólks árið 2023 er að okkur starfsfólki verður gefið frí dagana 27. og 28. desember. Starfsfólk með vinnuskyldu þessa daga, þarf að skrá þessa daga í Vinnustund með skýringuna „jólagjöf“. Föstudaginn 29. desember er starfsfólki í sjálfsvald sett, í samvinnu við sinn næsta yfirmann, hvort það tekur orlof eða mætir til starfa. Starfsfólk getur einnig nýtt sér styttingu vinnuvikunnar 29. desember og á það við um þá starfsmenn sem eiga kjarasamningsbundinn rétt til styttingar eða hefur ekki samið um aðra fasta daga til styttingar.

  • Jólamáltíð Reykjalundar 6. desember

Miðvikudaginn 6. desember býður Reykjalundur starfsfólki og sjúklingum upp á gómsætan jólamat í hádeginu við hugljúfa jólatónlist.

  • Jólaball Reykjalundar 11. desember

Mánudaginn 11. desember kl 16 býður Reykjalundur upp á jólaball fyrir okkur, börn og barnabörn í samkomusalnum. Engin skráning, bara mæta með jólaskapið.

  • Jólafundur Reykjalundar miðvikudaginn  13. desember

Miðvikudaginn 13. desember,  kl 12:15 verður árlegur Jólafundur Reykjalundar í samkomusalnum: Jólagleði, veiting starfsaldursviðurkenninga og óvænt jólauppákoma (hver verður leynigesturinn þetta árið?).
-Nánari upplýsingar verða svo sendar út þegar nær dregur varðandi hvert atriði.

Að lokum vil ég senda góðar kveðjur til starfsmannafélagsins okkar sem er heldur betur í banastuði þessa dagana þar sem boðið er upp á gönguferðir og heilsurækt nánast daglega fyrir okkur starfsfólk og að ógleymdri hátíðinni sem haldin verður í Hlégarði næsta fimmtudag þar sem ég vonast til að sjá ykkur sem allra flest.

Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka