25.08.2023

Föstudagsmolar forstjóra 25. ágúst 2023 - Gestahöfundur Stefán Yngvason

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolarnir á þessum sólríka ágústdegi. Gestahöfundur molanna að þessu sinni er Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga. Í dag er einmitt síðasti dagur hans í starfi framkvæmdastjóra lækninga. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka Stefáni kærlega fyrir samstarfið ásamt því að þakka honum góð og glæst störf í þágu Reykjalundar og framlag hans til endurhæfingarstarfs í landinu á sínum merka starfsferli.

Njótið helgarinnar og sendi ég mína bestu óskir um gleðilega bæjarhátíð til þeirra sem verða hér í Mosfellsbænum um helgina.

Bestu kveðjur
Pétur

***

Föstudagsmolar 25. ágúst 2023 – Tímamót.

Ágæta samstarfsfólk á Reykjalundi.
Sem ungur læknir stóð ég frammi fyrir því að velja mér sérgrein að loknu grunnnámi. Framan af hafði það ekki verið svo augljóst en ég var svo heppinn að fá að sækja klínískt  nám í taugalækningum á Grensási á 5. ári í læknadeild.  Þar upplifði ég vinnulag og starfsumhverfi sem var verulega ólíkt flestu því sem ég hafði áður kynnst í heilbrigðiskerfinu. Teymisvinna, aðlaðandi starfsumhverfi og samfella í meðferð var lykillinn að þeirri ákvörðun að gera endurhæfingu að ævistarfi. Þetta kemur sjálfsagt engu ykkar á óvart því að þetta á við okkur flest. Það er mikil gæfa að hafa fengið tækifæri á starfa á vettvangi endurhæfingar á Íslandi og fengið að taka þátt í þróun og nýsköpun í þessari mikilvægu starfsemi. Fyrir það er ég þakklátur.

Haustið 2019 urðu óvænt kaflaskil  þegar falast var eftir starfskröftum mínum á Reykjalundi til að setja saman þriggja manna starfsstjórn til sex mánaða í kjölfar óvæntra aðstæðna og óróleika sem þeim fylgdu. Til liðs við mig komu tveir öflugir einstaklingar, Anna Stefánsdóttir og Óskar Jón Helgason. Að þeim tíma loknum höfum við öll haldið áfram störfum fyrir Reykjalund, Anna sem formaður stjórnar Reykjalundar og við Óskar í framkvæmdastjórn.

Verkefni stjórnenda á Reykjalundi undanfarin ár hafa verið víðtæk og að mörgu að hyggja. Húsnæðismál, starfsmannamál og fjármál vega þar þyngst á vikulegum fundum framkvæmdastjórnar, að ógleymdum samningnum við Sjúkratryggingar sem setur starfseminni stífan ramma. Það hefur verið mjög áhugavert og gefandi að taka þátt í að þróa starfsemina í takt við kröfur tímans. Vil ég þar nefna gæðamál sem hafa farið á flug með tilkomu gæðastjóra. Gerð gæðaskjala hefur fleygt fram, árangursvísar skilgreindir, þjónustukannanir hafnar og  verkefni skráningarmiðstöðvar þróuð áfram.

Það er ekki hægt að líta um öxl án þess að nefna Covid faraldurinn og áhrif hans á starfsemina. Þetta var krefjandi tímabil fyrir okkur öll, en samstaða okkar og vilji til að mæta þörfum þeirra sem þurftu aðstoð vegna langvinnra veikinda eftir Covid smit var ánægjulegur kafli í þessu ástandi. Ég fékk það hlutverk að vera talsmaður Reykjalundar gagnvart fjölmiðlum og var það óvænt reynsla. Reykjalundur fékk með þessu talsverða umfjöllun og jákvæða og verðskuldaða athygli.

Reykjalundur hefur gegnt mikilvægu hlutverki í kennslu heilbrigðisstétta. Það var því mikið ánægjuefni þegar sett var á laggirnar sérnám á Íslandi í endurhæfingarlækningum fyrir tveimur árum, með Grensás og Reykjalund sem kjölfestu þess. Mikilvægt er að festa kennsluhlutverkið betur í sessi í samvinnu stjórnvöld.

Dagurinn í dag er síðasti starfsdagur minn á  Reykjalundi og mun Árdís Björk Ármannsdóttir taka við keflinu. Ég vil færa ykkur öllum góðar þakkir fyrir gott samstarf og óska ykkur öllum velfarnaðar í starfi.

Með góðum kveðjum,
Stefán

Til baka