18.08.2023

Föstudagsmolar forstjóra 18. ágúst 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þakkir til starfsfólks í sjúkraþjálfun.
Mig langar til að senda sérstakar þakkir til samstarfsfólks í sjúkraþjálfunardeildinni en nú fyrr í sumar fóru þau í risa-tiltekt á deildinni sinni. Farið var vel yfir öll rými og geymslu og margra ára(tuga) gömlu dóti hent eða komið á nýja eigendur. Jafnframt var deildin algerlega tæmd af dóti og húsgögnum fyrir alherjar hreingerningu sem fram fór svo í sumarhléinu okkar. Svo þurfi að flytja allt á sinn stað aftur að stórhreingerningu lokinni. Þetta allt gerðu þau samhliða daglegum störfum og er það sannarlega ekki sjálfgefið að allir séu tilbúnir í slíkt verkefni. Fremstar í flokki voru aðstoðarkonur sjúkraþjálfunar, þær Guðfinna, Ingunn og Sunna. Í vikunni var haldið þakkar-kaffi til að fagna áfanganum en myndin með molunum var tekin við það tækifæri og sýnir einmitt Guðfinnu og Ingunni.
Ég ítreka þakkir til allra í sjúkraþjálfuninni fyrir þátttökuna og framlagið.

Stefnumótunardagur Reykjalundar 8. september.
Föstudaginn 8. september leggjum við hefðbundna vinnu til hliðar hér á Reykjalundi og höldum stefnumótunardag þar sem óskað er eftir þátttöku sem allra flestra ykkar. Ég hef áður skrifað að það er mikilvægt að við hér á Reykjalundi höfum skýra stefnu varðandi hlutverk okkar og starfsemi. Að mínu mati og margra annara er mótun slíkrar stefnu ekki einkamál fárra stjórnenda heldur mikilvægt að fá breiða sýn frá öllu starfsfólki og finna út hvar samhljómur er. Í stefnumótunarferlinu ætlum við að svara spurningum eins og hvert á hlutverk Reykjalundar að vera og hver er framtíðarsýn og áherslur til næstu þriggja ára. Í kjölfar stefnumótunardagsins verður svo farið í skilgreiningu mælanlegra markmiða út frá þeim áherslum sem horft verður til næstu þrjú árin ásamt forgangsröðun aðgerða út frá skilgreindum mælanlegum markmiðum.
Undirbúningur hófst í vor og mun stefnumótunardagurinn einmitt hefjast á yfirferð á því sem undirbúningur og greiningarvinna hefur leitt í ljós. Í morgun var sendur út upplýsingapóstur þar sem fyrirkomulaginu er líst og farið yfir ýmsar hagnýtar upplýsingar.
Hér er mikilvægt og einstakt tækifæri til að taka þátt í þróun Reykjalundar og láta rödd sína heyrast – vonandi sjáumst við sem allra flest.

Að lokum óska ég ykkur góðrar helgar og vona að þið njóti vel Menningarnætur eða hverju öðru því sem þið takið ykkur fyrir hendur um helgina.

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka