11.08.2023

Föstudagsmolar forstjóra 11. ágúst 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Velkomin aftur!
Það er vel við hæfi að hefja molana á að bjóða ykkur velkomin aftur til starfa eftir sumarleyfi en starfið hófst aftur nú í vikunni eftir sumarhlé. Vonandi hafið þið sem allra flest náð að hafa það gott, hlaða batteríin og njóta lífsins. Þó það sé alltaf gott og gaman að komast í langþráð frí, finnst mörgum líka gaman að koma aftur til baka, hitta samstarfsfólkið og sjá daglegt líf á Reykjalundinum komast aftur í blóma. Okkar býða spennandi verkefni framundan í haust og vetur. Þar ber ekki síst að nefna stefnumótunardag Reykjalundar sem fram fer 8. september en í næstu viku fáið þið frekari upplýsingar hvernig dagurinn gengur fyrir sig.

Viðgerð á sundlaugum.
Nú standa yfir nauðsynlegar viðgerðir á sundlaugunum okkar og má búast við truflunum á starfseminni í næstu 3-4 vikur. Við reynum þó okkar besta við að raska starfseminni sem allra minnst. Þessa og næstu viku er það stærri laugin sem er í nauðsynlegri viðgerð en minni laugin er í notkun á meðan. Eftir um tvær vikur skiptum við svo um hlutverk hjá sundlaugunum og förum í viðgerðir á minni lauginni en opnum þá stærri. Myndin með molunum í dag var einmitt tekin í vikunni og sýnir stóru laugina okkar. Við biðjumst velvirðingar á þeim truflunum sem þetta kann að valda á daglegu starfi en viðgerðirnar eru nauðsynlegar og ég veit að allir gera sitt besta til að láta þetta ganga sem best og hraðast fyrir sig.

Heimsókn frá nýjum forstjóra Sjúkratrygginga.
Í vikunni fyrir sumarhléið okkar kom í heimsókn til okkar Sigurður Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, en hann tók við því starfi í febrúar. Hann kynnti sér starfsemina okkar og fundaði með fulltrúum framkvæmdastjórnar, stjórnarformanni og SÍBS, þar sem ýmis mál voru rædd tengd endurhæfingu, Reykjalundi og samningagerð. Næsta vor rennur út framlenging á núverandi þjónustusamningur okkar og því er gott að hefja undirbúning að nýjum samningi sem fyrst. Við þökkum Sigurði fyrir heimsóknina og fínan fund.

Við hér á Reykalundi fögnum fjölbreytileikanum og því er vel við hæfi að óska ykkur öllum gleðilegrar helgar!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka