Föstudagsmolar forstjóra 7. júlí 2023 - Gestahöfundur er Óskar Jón Helgason
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Hér koma föstudagsmolarnir á þessum sólríka sumardegi. Gestahöfundur molanna að þessu sinni er Óskar Jón Helgason, framkvæmdastjóri þjálfunar- og ráðgjafar.
Samkvæmt verðurspá stefnir í brakandi blíðu hér á höfuðborgarsvæðinu um helgina og ég vona því að þið getið notið vel, hvort sem það brestur á eldgos eða ekki.
Bestu kveðjur
Pétur
Föstudagsmolar 7. júlí 2023
Í dag þegar ég sest niður og skrifa þessi orð er síðasti vinnudagur minn fyrir sumarfrí. Ekki nóg með að fríið sé að byrja heldur virðist sem sumarið sé loksins komið á suðvesturhornið. Vinnan í vikunni hefur borið þess merki, kokkarnir rúlluðu út grillinu í vikunni og eftirvænting eftir að komast í langþráð frí er sýnileg hjá starfsmönnum. Það er kominn smá galsi í mannskapinn.
Þó Reykjalundur loki í þrjár vikur er það von mín að sem flestir geti tekið fjórðu viku, öðrum hvorum megin við sumarlokunina. Það er mikilvægt að ná það löngu fríi að starfmenn ná að kúpla sig algjörlega út og mín reynsla í gegnum árin er sú að það er heilmikill munur á því hvort teknar eru þrjár eða fjórar vikur í beit.
Í dag er ekki bara síðasti dagurinn fyrir frí heldur líka síðast dagur, í bili að minnsta kosti, sem ég fæ að taka beinan þátt í sjúklingavinnu. Undanfarna þrjá mánuði hef ég létt aðeins undir með geðheilbrigðisteyminu og tekið að mér að vera sjúkraþjálfari fyrir nokkra sjúklinga. Það eru 20 ár síðan ég var síðast starfandi í meðferðarteymi á Reykjalundi. Þó ég telji mig vita vel hversu flott vinna er unnin í meðferðarteymunum okkar, þá er það mjög holt að fá þessa innsýn beint í æð. Sitjandi á teymisfundum síðustu vikna getur maður ekki annað en hallað sér stundum aftur og hugsað hversu mikil forréttindi það eru fyrir sjúklingana okkar að komast í hendurnar á hópi svona flotts fagfólks, sem þar að auki býr yfir svona breiðri þekkingu. Þið sem vinnið í teymunum dags daglega verðið stundum að staldra við og minna ykkur á hversu sérstakt þetta umhverfi er og þá ekki síður hversu miklu það er að skila fyrir okkar sjúklinga.
Þó gott sé að fara í frí þá er líka gott að koma til baka. Ég gleðst sérstaklega yfir því að vita að frá og með haustinu stefnir loksins í að starfsmannahópurinn á sviði þjálfunar og ráðgjafar verði loksins fullskipaður. Nýr talmeinafræðingur mun hefja störf í haust og í lok ágúst mun fimmti félagsráðgjafinn einnig bætast í hópinn. Þetta gerir það að verkum að þessar tvær starfstéttir verða fullskipaðar í fyrsta skipti í nokkuð langan tíma. Auk þess kemur aukning hjá næringarfræðingum til framkvæmdar sem mun gera það að verkum að í öllum meðferðarteymum Reykalundar verður skilgreint stöðuhlutfall næringarfræðings. Það er langþráður áfangi sem ber að fagna.
Í þjálfunarstéttunum iðju- og sjúkraþjálfun, eru svo lykilstarfsmenn að snúa aftur til starfa eftir leyfi. Það er því hægt að láta sér hlakka til haustsins og þeirra verkefna sem bíða handan við hornið. Meðal þeirra verkefna sem bera hæst eru stefnumótunarvinna sem allir starfsmenn fá tækifæri til að taka þátt í á stefnumótunardegi 8. september næstkomandi. Einnig þarf strax eftir sumarhlé að fara að undirbúa samninga við SÍ en ná þarf nýjum samning áður en núverandi samningur rennur út 31. mars 2024. Við þurfum því að gefa okkur tíma til að spyrja okkur hvort við þurfum að breyta einhverju í okkar vinnulagi til hagsbóta fyrir okkar sjúklinga. Ef svarið er já, þá þurfum við að vera tilbúin að rökstyðja af hverju gera á slíka breytingu.
Enn fyrst förum við í sumarfríi og hugsum um eitthvað allt annað enn vinnuna.
Óskar Jón Helgason,
Framkvæmdastjóri þjálfunar og ráðgjafar