23.06.2023

Föstudagsmolar forstjóra 23. júní 2023 - Gestahöfundur er Ólafur Þór Gunnarsson.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolarnir í dag þegar Jónsmessunótt er framundan. Gestahöfundur er Ólafur Þór Gunnarsson, yfirlæknir Miðgarðs.
Ég vil svo nota tækifærið og minna á tiltektardaginn okkar á fimmtudaginn en annars óska ég öllum góðrar og gleðilegrar helgar.

Bestu kveðjur
Pétur


Í vikunni sem er að líða voru sumarsólstöður. Lengsti dagur ársins áður en  sólargangur styttist. Sumarið hefur farið hægt af stað og skrítið til þess að hugsa að áður en það er komin almennileg sumartilfinning í mannskapinn sé bjartasti tíminn á undanhaldi.

Það er oft talað um að við sem búum á Íslandi tölum of mikið um veðrið og séum of mikið að láta gott, slæmt, ekkert veður, pirra okkur og stjórna hugarfari. Sumir segja að það sé ekkert veður, bara hugarástand, og aðrir segja að veðrið sé bara og enn aðrir að bests é að bíða það af sér. Líklega eigum við fleiri vangaveltur um veður og tíðafar en margar aðrar þjóðir.
En þetta er ekki skrítið. Velferð okkar hefur í gegnum aldirnar byggst á því hvernig árar til sjávar og sveita. Afkoma fjölskyldna á því hvort gæfi á sjó, hvort sumur væru grasgefin og svo framvegis. Í tali okkar um veður og tíð birtist litla náttúrubarnið í okkur öllum. Náttúran er svo sterkur þáttur í lífi okkar að tal um hana er ekki bara til að drepa tímann eða fylla í vandræðalegar þagnir, heldur frekar staðfesting á því hvað hún skiptir okkur miklu máli.

Sums staðar í heiminum er mest talað um umferðina þegar fólk vantar eitthvað til að tala um. Eða konungsfjölskyldur eða frægt fólk. Eða nýjasta sjónvarpsefnið. Hér tölum við um veður, og við skulum ekki hætta því. Meðan við tölum um veður og höfum áhuga á því er enn von fyrir náttúrubarnið í okkur. Í veðurtali felst skilningur á því hve mikilvæg náttúran er okkur öllum. Hvernig við leyfum henni að móta okkur. Látum enga segja okkur að við megum ekki tala um hvernig vindurinn blæs, að það skiptist á skyn og skúrir, að sjaldan sé ein báran stök og að öll él stytti upp um síðir. Við erum öll veðurfræðingar, við erum öll nátturubörn.

Ólafur Þór Gunnarsson,
Yfirlæknir Miðgarðs

Til baka