21.06.2023

Aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf.

Í gær fór fram aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf. í samkomusal Reykjalundar.
Vorið 2020 stofnaði SÍBS, eigandi Reykjalundar, sérstakt félag um rekstur endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi. Nýja félagið er óhagnaðardrifið einkahlutafélag með sérstaka stjórn sem er óháð stjórn SÍBS. Nýja félagið tók alfarið við stjórnartaumunum um áramótin 2020/2021.
Samkvæmt ákvörðun stjórnar eru aðalfundir Reykjalundar opnir fundir og allir velkomnir. Fín þátttaka var en það var Bryndís Haraldsdóttir alþingsmaður og formaður Hollvinasamtaka Reykjalundar sem var fundarstjóri. Fundurinn hófst á ávarpi Willums Þórs Þórssonarheilbrigðisráðherra sem ræddi meðal annars um stefnu í endurhæfingarmálum og gríðarlega mikilvægt hlutverk Reykjalundar í endurhæfingarstarfi íslenska heilbrigðiskerfisins. Síðan tóku við hefðbundin aðalfundarstörf þar sem meðal annars Anna Stefánsdóttir, formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar gekk úr stjórn en í hennar stað var kjörin Aldís Stefánsdóttir sem einnig er tilnefnd af Mosfellsbæ eins og Regína. Sveinn Guðmundsson formaður SÍBS, flutti fundarmönnum og starfsfólki góðar kveðjur frá SÍBS. Fulltrúar frá endurskoðunarfyrirtæki Reykjalundar, Endurskoðun og ráðgjöf ehf., kynntu ársreikninga. Jafnframt fluttu Berglind Gunnarsdóttir og Hlín Bjarnadóttir, gæðastjórar Reykjalundar fræðsluerindi um árangursmælingar og gæði starfseminnar og dagskránni lauk svo á hugvekju frá Pétri Magnússyni forstjóra Reykjalundar um Reykjalund í nútíð og framtíð.

Til baka