16.06.2023

Föstudagsmolar forstjóra 16. júní 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Vikan sem nú að er ljúka er klárlega besta veðurfarslega vika sumarsins hingað til, að minnsta kosti hér sunnanlands. Nú hlýtur sumarið að vera komið enda hitastigið komið í tveggja stafa tölu og vel yfir stýrivaxtastigið. Við horfum reyndar öfundaraugum austur á land og vonumst til að vinir okkar þar sendi til okkar örlítinn hluta af alvöru sumri á næstunni. Það er vel við hæfi að myndin með molunum í dag sé sumarmynd en hún var einmitt tekin í starfsmannaleikfiminni okkar í vikunni.

*“Raunveruleikasjónvarp“ Reykjalundar
Mest-umtöluðustu einstaklingarnir hér á Reykjalundi eru ekki (þótt ótrúlegt sé) stjórnmálamenn, samfélagsmiðlastjörnur né seðlabankastjóri. Heldur eru það tjalda-fjölskylda sem býr á útisvæðinu í miðju porti Reykjalundar. Síðustu þrjú ár eða svo hefur tjalda-par gert sér hreiður á svæðinu, verpt og alið upp unga. Sjálfsagt virkar þetta góður staður fyrir þau en án ef gera þau sér ekki grein fyrir að gluggar eru að þeim frá þremur hliðum og við starfsfólk, sjúklingar og aðrir gestir fylgjumst vel með hverri hreyfingu þeirra. Nokkurs konar raunveruleikasjónvarp Reykjalundar. Eftir að parið hafði legið á eggjunum í um þrjár vikur nú í vor, sáust ungar einn morguninn. Lengi vel voru ungarnir þrír og við sem fylgjumst með, höfum séð ungana stækka daglega. Um síðustu helgi gerðist það hins vegar að einn unginn fannst látinn en dánarorsök er ókunn. Hinir tveir ungarnir virðast dafna vel enda foreldrarnir duglegir að sækja maðka og annað góðgæti í nágrennið. Nú er bara að krossa fingur og vona að hinir Reykjalundar-ungarnir tveir spjari sig í hinum harða heimi.

*Tiltektardagur 29. júní
Fimmtudaginn 29. júní höldum við tiltektardag hér á Reykjalundi. Þá er ætlunin að við starfsfólk gefum okkur smá tíma til að líta upp úr daglegum störfum og tökum til í nærumhverfinu okkar. Hver deild/eining velur hvað hún gerir í samráði við samstarfsfólk og næsta yfirmann. Þetta getur verið inni (t.d. vinnuaðstaðan, kaffistofan, gangurinn, geymslan, eða jafnvel bara harði diskurinn í tölvunni) eða úti í kringum vinnustöðina okkar (t.d. port, svalir, gangstéttir o.fl.) – fegrum, hreinsum og hendum.
Við miðum við að hver starfsmaður nýti um 2 klst í tiltektina, t.d. kl 13-15 en það er auðvitað breytilegt eftir deildum, starfsfólki og verkefnastöðu hvaða tími dagsins hentar best.
Hins vegar væri gaman að sem allra flestir miði við að vera búnir kl 15:15 en þá sláum við upp léttri grillveislu í garðinum fyrir utan matsalinn þar sem boðið verður upp á pylsur, drykki og skemmtilega tónlist.
Nánari upplýsingar koma þegar nær dregur.

Gleðilega þjóðhátíð!
Þá styttist í sjálfan þjóðhátíðardaginn en lýðveldið okkar fagnar einmitt 79 ára afmæli á morgun og er einu ári eldra en Reykjalundur. Eitt af einkennum sjálfstæðis okkar er tungumálið og til að vernda það hafa jafnan verið sett fram nýyrði með reglubundnum hætti og voru mörg dagleg orð íslenskunnar einmitt sett fram af Jónasi Hallgrímssyni á sínum tíma. Í tilefni þjóðhátíðarinnar rakst ég í vikunni á umfjöllun um nokkur nýyrði sem ef til vill eiga eftir að verða í daglegri notkun eftir fimmtíu ár eða svo:
Gamanmenni: Uppistandari
Húsflúr: Veggjakrot
Þeytikvörn: Blandari
Skjóluskrá: „Bucket list“
Flygildi: Dróni
Þyrnihrós: Niðrandi hrós
Kraftkría: „Powernap“
Jarm: „Meme“
Gærmeti: Afgangar

Að lokum óska ég ykkur öllum góðrar helgar og gleðilegrar þjóðhátíðar!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka