02.06.2023

Föstudagsmolar forstjóra 2. júní 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

*Þakkir til Ástu Margrétar
Nú í vetur hefur Ásta Margrét Sigfúsdóttir, sjúkraliði á Miðgarði, boðið okkur starfsfólki Reykjalundar upp á hugleiðslu og slökun í samkomusalnum. Tímarnir voru á miðvikudögum kl.16:15 og voru þeir starfsfólki að kostnaðarlausu en Ásta Margrét gaf vinnuframlag sitt. Tímarnir voru almennt vel sóttir og erum við hér á Reykjalundi henni mjög þakklát.
Í vikunni var síðasti tími vetrarins og við Guðbjörg mannauðsstjóri kíktum í heimsókn í upphafi tímans og færðum Ástu Margréti þakklætisvott frá Reykjalundi vegna þessa. Myndin með molunum í dag er einmitt tekin við það tækifæri.
Framtak og framlag sem þetta er ekki sjálfsagt og mikils metið. Kærar þakkir Ásta Margrét.

*Afmælisráðstefna VIRK
Í vikunni sótti ég afmælisráðstefnu VIRK sem haldin var í tilefni af 15 ára afmæli VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs. Hlutverk Virk er að efla starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði. Ýmsir áhugaverðir fyrirlestrar voru á ráðstefnunni. Auk kynningar á ákveðnum áhugaverðum þáttum í starfi Virk, var meðal annars sagt frá hlutverkum ráðuneyta og vinnumálastofnunar í ferlinu yfir í erlenda gesti sem sögðu frá áhugaverðum nálgunum í sínum löndum. Starfsendurhæfing hefur verið mikilvægur hluti af þjónustu Reykjalundar um langa hríð. Þó sú þjónusta sé ekki með formlegum hætti eins og er, stefnum við ótrauð að eflingu slíkrar þjónustu og vonandi mun samstarf okkar við VIRK bara aukast á komandi tímum.

*Aðalfundur Reykjalundar 20. júní kl 14
Aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf. verður haldinn þriðjudaginn 20. júní kl 14 í samkomusalnum okkar. Í samráði við forstjóra og fleiri hefur stjórn ákveðið að Reykjalundur haldi formlega og opna aðalfundi, líkt og Landspítali og fleiri heilbrigðisstofnanir gera. Þetta tel ég vera góðan sið.
Á fundinum verður stiklað á mjög stóru í starfi Reykjalundar, ársreikningar kynntir og fleira slíkt sem tilheyrir aðalfundum. Jafnframt mun heilbrigðisráðherra ávarpa fundinn og fleiri erindi verða flutt.
Eins og áður segir verður fundurinn öllum opinn og verður hann auglýstur opinberlega á næstunni. Gaman væri að sem flest ykkar geti tekið þátt.

Að lokum minni svo á almennan upplýsingafund fyrir starfsfólk í hádeginu á miðvikudaginn í samkomusalnum.
Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka