01.06.2023

Þátttaka Reykjalundar í 21. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands

Í vikunni sem leið var 21. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands haldin. Starfsmenn Reykjalundar lögðu sitt til málana á ráðstefnunni og voru alls með fjögur erindi og eitt veggspjald.

  1. Thelma Rún Rúnarsdóttir næringarráðgjafi og doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands fjallaði um hversu vel eigið mat á hreyfingu með staðlaðri spurningu og svörum segir til um líkamlegt þol og styrk viðkomandi einstaklings. Niðurstaða Thelmu var að eigið mat á hreyfingu gefur góða mynd sem er gott því umrædd staðlaða spurning er lögð fyrir alla sem koma til endurhæfingar á Reykjalundi.
  2. Karl Kristjánsson læknir kynnti BS verkefni Telmu Sigþrúðar læknanema sem fjallaði um áhrif útigöngu í vetrarkulda á blóðþrýsting, hjartslátt og mæði hjá sjúklingum með kransæðasjúkdóm. Á Reykjalundi er ganga utandyra mikilvægur þáttur í endurhæfingunni og þessi forathugun bendir til að hún sé örugg fyrir þennan sjúklingahóp.
  3. Marta Guðjónsdóttir rannsóknarstjóri kynnti meistaranámsverkefni Þórdísar Sigurbjörnsdóttur sjúkraþjálfara sem fjallaði um árangur þolþjálfunar hjá einstaklingum með langvinn Covid-19 einkenni. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að árangurinn var góður hjá þessum hópi. Og ekki síður mikilvægt að þeir sem mest þjáðust af þreytu nutu ekki síður ávinnings af þolþjálfuninni en þeir sem voru með önnur einkenni. 
  4. Thelma Rut Hólmarsdóttir sjúkraþjálfari kynnti meistaranámsverkefni sitt um áhrif snerpuþjálfunar með ljósakerfi á einstaklinga með parkinson sjúkdóminn. Þjálfunin bætti jafnvægi og getu til að snúa á punktinum. Höfundar benda á að þetta þjálfunarform sé mjög hvetjandi og ýti undir þjálfunarheldni.
  5. Ingibjörg Viktoría Hafsteinsdóttir sjúkraþjálfari kynnti meistaraverkefni sitt sem fjallaði um faraldsfræði bylta hjá einstaklingum með öryggishnapp. Niðurstöðurnar varpa ljósi á stöðu mála hérlendis auk þess að geta nýst við þróun úrræða til varnar byltum og alvarlegum afleiðingum bylta.

Til baka