19.05.2023

Föstudagsmolar forstjóra 19. maí 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Árlegur fundur með vísindaráði
Í vikunni fór fram árlegur fundur Vísindaráðs Reykalundar og framkvæmdastjórnar. Á fundinum fer vísindaráð yfir helstu atriði í vísinda- og rannsóknastarfi á Reykjalundi og hvernig til tókst á starfsárinu. Jafnframt er rætt um framhaldið og helstu viðfangsefni sem framudan eru. Fjallað verður um yfirlit vísindastarfsins í sérstakri frétt um málin á næstunni en annars vorum við sammála um að leita leiða til að gera vísindastarf og rannsóknir hér á Reykalundi enn sýnilegri en verið hefur. Enn fremur er mikilvægt að efla starfið og tryggja fjármagn í vísindasjóð Reykjalundar, ásamt því að fá stjórnvöld til að viðurkenna með formlegum hætti mikilvægt hlutverk Reykjalundar í vísinda-, rannsókna- og kennslustarfi endurhæfingar í landinu.
Á hverju ári kemur einn nýr aðili inn í stjórn vísindaráðsins úr hópi okkar starfsfólks og við munum á næstunni auglýsa eftir áhugasömum fulltrúa.

Þátttaka í nærsamfélaginu – KB þrautin fer fram á morgun.

Á morgun fer fram KB þrautin sem er skemmtilegt þrautahlaup, þar sem bæði er hörð keppni en einnig er hugmyndin að vinahópar, fjölskyldur og vinnufélagar geti tekið þátt sér til gamans. Í þessu hlaupi sem er um 10 km takast þátttakendur á við 20-30 fjölbreyttar þrautir á leiðinni. Íþróttaviðburðurinn fer fram á vegum Kettlebells Iceland sem er einmitt með æfingaaðstöðu á Engjaveginum, hér í útjaðri lóðarinnar okkar á Reykjalundi. KB þrautin eru nú haldin í þriðja skipti, keppendur er um 250 talsins og er einstakt útivistarumhverfi hér í kringum Reykjalundi notað til að gera þrautina eins skemmtilega og mögulegt er. Hluti af brautinni er á lóðinni okkar ásamt því að upphaf og endamark verða á túninu við Neðribraut. Það er ánægjulegt fyrir okkur hér á Reykjalundi að leggja okkar af mörkum við að gera nærsamfélagið í kringum okkur fjölbreyttara og skemmtilegra, ekki síst þegar heilsuefling, hreyfing og útivera eiga í hlut. Þar fara hagsmunir sannarlega saman við stuðla að góðu samfélagi.
Við óskum öllum þátttakendum góðrar skemmtunar en meðfylgjandi mynd var tekin í morgun þegar verið var að vinna að undirbúningi keppninnar. Nánar upplýsingar er að finna hér ef einhver hefur áhuga á að kynna sér málin betur:
https://kettlebells.is/?page_id=729

Starfsmannafundur 7. júní
Mig langar því að lokum að geta þess að við í framkvæmdastjórn höfum boðað til almenns starfsmannafundar í hádeginu, miðvikudaginn 7. júní. Ætlunin er að hafa slíka fundi a.m.k. fjórum sinnum á ári og því er vel við hæfi að halda einn fund áður en sumarfríin byrja að bresta á. Þó að það sé nú ekkert sérstaklega sumarlegt úti eins og er, er örstutt í júní-mánuð og sumarfríin okkar eru bara handan við hornið. Á dagskrá fundarins verður kynning á ýmsum málum sem eru efst á baugi hér í Reykjalundarlífinu. Vonandi hafið þið sem flest tök á að koma en fundarboð verður einnig sent í tölvupósti síðar í dag.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka