12.05.2023

Föstudagsmolar 12. maí 2023.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Í dag er alþjóða dagur hjúkrunarfræðinga og því vel við hæfi að gestahöfundur molanna okkar í dag komi úr þeirra hópi. Það er Rósa María Guðmundsdóttir hjúkrunarstjóri og formaður geðheilsuteymis.
Hamingjuóskir til allra hjúkrunarfræðinga.
Gaman var svo að heyra af velheppnaðri kvennaferð Reykjalundar um síðustu helgi og sjálfsagt að þakka Þórdísi, Ellý og öðrum sem komu þar að undirbúningi og öllum hinum fyrir þátttökuna.

Vonandi náið þið öll að njóta helgarinnar þó við séum enn að jafna okkur eftir vonbrigði gærkvöldsins í Júróvisión. Við vinum þetta næst.

Bestu kveðjur
Pétur


Föstudagsmolar 12. maí 2023.
Í dag er alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga sem haldinn er hátíðlegur ár hvert á fæðingadegi Flórens Nightingale (1820-1910) eða konunnar með lampann eins og hún var kölluð. Flórens var bresk hjúkrunarkona, tölfræðingur og afkastamikill rithöfundur. Hún stofnaði fyrsta eiginlega hjúkrunarskólann og lagði grunninn að nútíma hjúkrun. Einna þekktust er hún fyrir framlag sitt í Krímsstríðinu, en hún kom því til leiðar að sendur var flokkur hjúkrunarkvenna til Scutari til að sinna særðum hermönnum við litla hrifningu annarra yfirmanna. Flórens lét sig ekki og náði að gerbreyta aðbúnaði hermannanna, sá til þess að hreinlæti var tekið föstum tökum og hermennirnir fengju næringarríkan mat og hjúkrun. Samhliða stundaði hún heildræna hjúkrun með því að sinna einnig andlegum og félagslegum þörfum þeirra.
Flórens lagði áherslu á gagnreynda þekkingu sem byggð væri á staðreyndum enda var hún sjálf framúrskarandi tölfræðingur, en þetta var nýnæmi á þeim tíma. Einnig lagði hún áherslu á símenntun,  gangrýna hugsun og að fylgja sannfæringu sinni. Hjúkrun ætti að vera heildræn til að fullur bati næðist og ekki mætti slá af kröfum þjónustunnar því skjólstæðingar ættu rétt á bestu mögulegu þjónustu sem hægt væri að veita. Þó að komin séu á annað hundrað ár síðan þetta var skrifað eru þessir þættir í fullu gildi enn í dag og leiðarljós þeirra sem starfa við heilbrigðisþjónustu.

Undanfarna daga hef ég velt fyrir mér hvað það er sem gerir hjúkrunarstarfið svo einstakt og gefandi að mínu mati.  Margt hefur komið upp í hugann en það er einkum tvennt sem ég vil minnast á hér.
Í fyrsta lagi er það fjölbreytileiki hjúkrunarstarfsins,  en ég held að mér sé óhætt að segja að það séu ófá störf sem eru eins fjölbreytileg og störf hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar auk þess sem þeir koma að mótun hennar og áætlun. Þeir vinna á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, úti í samfélaginu, við endurhæfingu, fræðslu og forvarnastörf og svo mætti lengi telja.
Í öðru lagi eru það þessi mannlegu samskipti og tengsl við aðra sem gera starfið svo einstakt. Við snertum líf fólks á mikilvægum stundum í þeirra lífi og ef vel tekst til þá er fátt sem gefur manni eins mikið.
Til hamingju með daginn kæru hjúkrunarfræðingar og ég óska öllum gleðilegs og endurnærandi sumars.

Rósa María Guðmundsdóttir

Til baka