28.04.2023

Föstudagsmolar forstjóra 28. apríl 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Ólíkt gærdeginum, er nú gaman að sjá hvað það er snjónlétt á götum úti þennan morguninn.
Hér að neðan eru föstudagsmolar dagsins en gestahöfundur í dag er Arna Elísabet Karlsdóttir, formaður vísindaráðs. Það kemur kannski ekki á óvart að hennar innlegg er góð hugvekja um okkar glæsta vísindastarf.

Framundan er löng helgi fyrir okkur flest – njótið vel!

Bestu kveðjur
Pétur


Föstudagspistill frá formanni vísindaráðs.

Þann 9.júní 2004 var fyrsti formlegi fundur vísindaráðs Reykjalundar. Vísindaráð er skipað þremur einstaklingum. Þess er gætt að það sé þverfaglegt og að jafnræði sé milli faghópa við skipan ráðsins. Vísindaráð hefur margvísleg hlutverk. Það vinnur m.a. náið með rannsóknastjóra að framgangi vísindastefnu Reykjalundar.

Í vísindastefnunni segir að í fyrsta lagi skuli leggja áherslu á þætti er varða færni líkamans og byggingu, á virkni og þátttöku fólks í daglegu lífi og á umhverfis- og persónuþætti. Í öðru lagi skuli leggja áherslu á að auka þekkingu á matstækjum og vera í fararbroddi í aðlögun og þróun nýrra matsaðferða í endurhæfingu.

Meiri hluti starfsmanna Reykjalundar er menntað í heilbrigðisvísindum. Starfsemin byggir að stórum hluta á vísindalegum grunni. Þær alþjóðlegu klínísku leiðbeiningar sem  við notum í starfi byggja á niðurstöðum rannsókna. Leitast er við að nota viðurkennd matstæki við fjölbreytileg störf okkar og þróun þeirra er leidd áfram af niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.

Reykjalundur gegnir mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfinu. Er stærsta endurhæfingarstofnun landsins og  ætti að vera leiðandi í rannsóknum í endurhæfingu á Íslandi. Það er mikilvægt fyrir stofnun sem hefur svo mikilvægt  hlutverk, og sinnir klínískri kennslu, að taka saman niðurstöður úr starfseminni og geta sýnt fram á árangur meðferðar. Þetta skiptir máli fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, eftirlitsaðila, kaupanda þjónustunnar og til kynningar á ráðstefnum hérlendis og erlendis. Þetta skiptir einnig máli varðandi  þróun meðferðar sem veitt er og eykur gæði hennar. Við þurfum að vita hvað virkar og skilar árangri. Þá er mikilvægt að þau matstæki sem notuð eru séu viðurkennd. Starfsfólk er þjálfað í að mæla og meta út frá alþjóðlegum leiðbeiningum. Þetta tryggir rétta framkvæmd mælinga óháð því hver stýrir þeim. Slík vinnubrögð gera samantekt  árangursmælinga og rannsókna öruggari enda er vönduð klínísk vinna grunnur að góðri rannsóknarvinnu.

Starfsfólk sækir ráðstefnur hérlendis og erlendis til að fylgjast með þróun í sínu fagi  sem geta nýst okkur í starfi en ekki síður til að kynna niðurstöður rannsókna á Reykjalundi. Við höfum líka okkar hátíð því árlega er haldinn vísindadagur Reykjalundar.  Þar eru kynntar niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar eru af starfsfólki og háskólanemum. Nauðsynlegt er að fylgjast með þróun og árangri í endurhæfingu hér innanhúss. Þó svo að við komum ekki öll beint að samantekt rannsóknanna, þá hafa margir starfsmenn lagt hönd á plóg við gagnasöfnunina sjálfa í sínu klíníska starfi. Vísindadagurinn er því hátíð okkar allra þar sem við fræðumst um afrakstur okkar mikilvæga starfs í endurhæfingu og til að huga að frekari þróun starfseminni í hag.

Á heimasíðu Reykjalundar https://www.reykjalundur.is/visindi-og-kennsla/ eru upplýsingar um rannsóknarverkefni, hvort sem þau eru í vinnslu eða er lokið, og eins upplýsingar um birtar ritrýndar greinar. Þarna bera að líta fjöldann allan af mjög fjölbreyttum rannsóknum sem eiga erindi í endurhæfingu, varpa á hana betra ljósi og nýtast vel til þróunar á starfseminni. Ég hvet ykkur til að fara inn á svæðið og skoða. Það kemur sjálfsagt mörgum á óvart sú vísindalega virkni hér á Reykjalundi.
Höldum áfram á sömu vegferð, höldum uppi vísindalegri virkni, Reykjalundi til heilla.

Arna Elísabet Karlsdóttir,
formaður vísindaráðs.

Til baka