31.03.2023

Föstudagsmolar forstjóra 31. mars 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Að aflokinni glæsilegri og vel heppnaðri árshátíð er vor í lofti þessa dagana. Apríl er framundan með páskahléi í starfseminni og sumardagurinn fyrsti er handan við hornið.
Olga Björk Guðmundsdóttir hjúkrunarstjóri og formaður efnaskipta- og offituteymis er gestahöfundur föstudagsmolanna í dag en pistill hennar sem fylgir hér að neðan er einmitt á þessum nótum.

Ég óska ykkur öllum góðrar helgar!

Bestu kveðjur
Pétur


Vorið er að koma - Tími til að blómstra og njóta

Velkomið kæra vor segi ég á þessum bjarta árstíma þegar elsku blómin á plómutrénu mínu fara að opnast svona fallega og biðja mig eiginlega um að dreifa gleðinni áfram.
Einmitt þetta augnablik fangaði ég í gær, fór í hlutverk býflugu , suðandi um með pensil  á milli blómanna til að bera frjókorn á milli og fékk vatn í munninn við tilhugsunina um bláu safaríku plómurnar sem ég fæ í sumar. Þetta er vorboði í mínum huga og þegar litlu fræin mín spíra og gægjast forvitin uppúr moldinni í leit að meiri birtu og vatni. Ég býð þau ávallt hjartanlega velkomin og lofa að ég muni hlúa vel að þeim svo þau megi blómstra. Svo er það tilhlökkunarefni eftir vinnu að kíkja á litlu blómin sem hafa myndast og sjá hvað þau hafa stækkað.

Mér er það hugleikið að nota samlíkingu tengda ræktun þegar ég hvet skjólstæðingana mína til að rækta sjálfa sig til að geta blómstrað sem best í lífinu hverju sinni. Spurning eins og “hvað þarft þú að leggja rækt við í lífinu svo það megi verða?” Mér finnst gott að spyrja sjálfa mig að því sama reglulega og taka þeim áskorunum sem birtast hverju sinni.
Það er svo margt sem við getum gert til að blómstra í einkalífi og vinnu.  Ég hef valið mér að hafa jákvæðni og þakklæti að leiðarljósi og hafa eins góð áhrif á umhverfi mitt og ég get. Reyni að sá jákvæðum fræjum.  Það skiptast auðvitað á skin og skúrir í lífinu sem gerir það svo heillandi og lærdómsríkt.  Í vinnunni erum við dugleg að ráðleggja fólki að hlúa að heilsu sinni og vellíðan og erum rík af allskyns verkfærum sem við sjálf erum svo heppin að eiga og geta leitað í þegar skúrirnar í lífinu okkar fara yfir. Þá er gott að leita í inngrip sem geta veitt bæði góða orku og endurnæringu á sál og líkama.

Ég heillaðist af því sem kallast hugflæði (e.flow) í jákvæðu sálfræðinni. Mihaly Csikszentmihaly sálfræðingur skrifaði bækur um þetta efni. Að vera í hugflæði gætu verið stundirnar þar sem þú rennir þér niður skíðabrekku, athyglin öll á hreyfingar líkamans, stöðu skíðanna, vindinn sem streymir um andlitið og fallegt umhverfið í kring.  Þú getur lika komist í hugflæði vinnunni þinni við að halda fyrirlestur um efni sem þú kannt vel, finnst skemmtilegt og færð góða endurgjöf frá þeim sem hlusta. Tíminn búinn áður en þú veist af og upplifun á eftir um stolt og gleði.

Kæra samstarfsfólk, fögnum vorinu, voninni sem fylgir því og gleðinni. Njótum þess að hlusta á söng lóunnar sem kveður burt snjóinn og fagnar með okkur nýrri árstíð birtu og blóma í haga. Leyfum okkur að blómstra sem best og hlúum að okkur sjálfum og umhverfi okkar heima og í vinnu. Læt fylgja með lagið Vorvindar glaðir sem ég söng svo oft þegar ég var barn og geri enn.

Vorvindar glaðir , glettnir og hraðir, geysast um lundinn rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa , hjala og hoppa , hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla hlustaðu á; hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður , kætir og gleður, frjálst er í fjallasal.

Olga Björk Guðmundsdóttir
Hjúkrunarstjóri og formaður efnaskipta- og offituteymis

Til baka