24.03.2023

Föstudagsmolar forstjóra 24. mars 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þetta er að bresta á!
Nú er aðeins rúmur sólarhringur í árshátíð Reykjalundar sem við höldum hátíðlega annað kvöld. Mikil eftirvænting er í lofti og spennan magnast enda venjulega mikið um dýrðir þegar svo stór hópur starfsfólks Reykjalundar kemur saman á einum stað til að skemmta sér. Íbúar Grafarholts og Úlfarsárdals hafa verið varaðir við og sagt er að veðurstofan sé með sérstakan viðbúnað þar sem jarðskjálftamælar gætu orðið fyrir truflunum þegar gleðin stendur sem hæst.
Annars vil ég óska okkur öllum góðrar skemmtunar og hlakka til sjá ykkur í banastuði á morgun!

Gestahöfundur föstudagsmolanna í dag er Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga, sem hann nefnir Að Stormi loknum.

Gleðilega gleði og njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur
Pétur


Að Stormi loknum.

Það hafa verið afar áhugaverð sunnudagskvöldin á RÚV undanfarnar vikur með sýningum á heimildarmyndinni Stormur. Þarna fengu landsmenn algjörlega nýtt sjónarhorn inn í þann flókna veruleika sem við öll upplifðum í kófinu, hvert þó með sínum hætti. Það kom vissulega mjög á óvart hversu  efnið var nærgöngult enn jafnframt afar nærgætið. Við kynntumst þríeykinu eins og við hefðum setið með þeim fundina og fundum samhljóm í samtölum þeirra sem rímuðu vel við margt af því sem við þurftum að velta fyrir okkur hér á Reykjalundi. Við erum gæfusöm þjóð að hafa megnað að gera þetta saman og sýnt þolgæði í þeim erfiðleikum sem farsóttinni fylgdu.

Við getum líka verið stolt yfir því að hafa tekið virkan þátt í viðbrögðum við farsóttinni, bæði sóttvarnaraðgerðum en ekki síður að hafa snúið vörn í sókn með því að setja á fót meðferð fyrir þá sem urðu fyrir langvinnum einkennum af völdum veirunnar. Þetta hefur vissulega vakið mikla athygli og áhuga fjölmiðla og almennings á þessum langvinnu afleiðingum og ekki síður þeim úrræðum sem við gátum boðið upp á.

Við höfum nú tekið saman tölur um þennan þátt starfseminnar:
Alls bárust 209 beiðnir frá vori 2020 til maí 2022, en alls höfðu 144 lokið meðferð í maí 2022.
Haustið 2022 voru sem kunnugt er engar post-covid innskriftir vegna langra biðlista í öllum teymum en svo komu 20  manns komu úr þessum hópi í meðferð í byrjun þessa mánaðar. Alls hafa borist 255 Post-Covid beiðnir á Reykjalund en vegna langs biðtíma og batnandi líðan er nokkuð um brottfall af biðlistanum, en eftir standa 26 beiðnir í beiðnagátt.

Hvernig verður svo framhaldið? Um það ríkir óvissa m.a. vegna þess hve upplýsingar um fjölda þeirra sem hafa langvinn einkenni eru ekki öruggar, en erlendar tölur liggja á bilinu 10-15% af smituðum. Töluvert er skrifað um þessi vandamál og nýjar upplýsingar koma fram stöðu mála. Reykjalundur leggur sitt að mörkum með þeirri rannsókn sú sem framkvæmd var hér og hefur skilað tveimur ritgerðum á háskólastigi og tvær til viðbótar sem eru í vinnslu. Enn eru til staðar næg gögn fyrir áhugasama til að vinna úr og bæta við þekkingu okkar um áhrif endurhæfingar á langvinn einkenni Covid.

Myndin sem fylgir sýnir logn á Kristneshæli í Eyjafjarðarsveit. Berklahælið þar var opnað 1927 í kjölfar alvarlegrar berklafarsóttar sem þá herjaði á landsmenn. Á þessu málaða ljósmyndapóstkorti má sjá sjúklinga leika krikket á grasflöt sunnan við hælið. Ekkert vantar upp á stílinn þarna!

Góðar stundir.

Stefán Yngvason

Til baka