03.03.2023

Föstudagsmolar forstjóra 3. mars 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

„Lífið býður upp á óvæntar uppákomur af ýmsu tagi og það er okkar að takast á við þær á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt. Hver hefur sinn háttinn á þegar kemur að því að takast á við erfiðleika.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í föstudagsmolum dagsins. Þessa vikuna er gestahöfundur Hugrún Sigurjónsdóttir sálfræðingur sem vekur okkur til umhugsunar um hvað sýn við höfum á lífið og hvernig við viljum takast á við það.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur
Pétur


Um ACT og Hamingjugildruna

Lífið er eins og slönguspil, annað hvort er maður á hraðleið upp stigann eða maður steypist niður slönguna. Sundum nánast alla leið á byrjunarreit. Þannig hefur mér liðið síðustu vikurnar. Ástæðan er kannski ekkert grafalvarleg en þó nóg til þess að ég hef upplifað tilfinningar á borð við depurð, vonleysi, reiði og pirring. Málið er að bíllinn minn er búinn að vera bilaður. Eftir ýmsar viðgerðir og áframhaldandi bilun er hann nú kyrrsettur í umboðinu og útlit fyrir að frekari viðgerðir krefjist töluverðra fjárútláta. Jafnvel svo mikilla að ég þurfi að vera bíllaus í einhvern tíma.

Sögur á borð við þessar eru sem betur fer ekki daglegt brauð hjá okkur en þó hluti af lífinu. Áföll í lífinu eru af ýmsum toga, þau geta verið félagsleg, heilsufarsleg eða fjárhagsleg svo eitthvað sé nefnt.
Lífið býður upp á óvæntar uppákomur af ýmsu tagi og það er okkar að takast á við þær á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt. Hver hefur sinn háttinn á þegar kemur að því að takast á við erfiðleika.
Eins og fjallað er um í bókinni Hamingjugildran er hamingjan hvorki varanlegt né stöðugt ástand. Lífið er erfitt og sú staðreynd verður ekki umflúin.
En hverjar sem aðstæður okkar eru þá höfum við val, val um að gera það besta úr hinni óvæntu reynslu. Í bókinni eru kynntar aðferðir sem við getum notað til að losa okkur af öngli erfiðra hugsana og tilfinninga þegar við upplifum sársauka og aðferðir til að skapa okkur það líf sem er þess virði að lifa.

Í Hamingjugildrunni eru kenndar einfaldar en árangursríkar aðferðir til að takast á við sársaukafullar hugsanir, tilfinningar, upplifanir og minningar. Við lærum hvernig minnka má áhrif þeirra svo þær haldi ekki aftur af okkur og valdi okkur vanlíðan.

Líf okkar getur verið innihaldsríkt óháð því hvað hefur hent okkur í lífinu eða hvaða áskoranir við erum að takast á við.
Bókin byggir á meðferðarstefnu ACT (acceptance and commitment therapy) en rannsóknir hafa sýnt fram á árangur ACT við ýmsum andlegum erfiðleikum á borð við depurð og kvíða.
Í bókinni eru tekin dæmi af raunverulegu fólki sem glímir við miskrefjandi áskoranir í lífinu og skýrt frá því hvernig höfundur bókarinnar Russ Harris hjálpar því með því að nota verkfæri ACT meðferðarstefnunnar.

Aðferðir okkar til að takast á við erfiðar hugsanir má skipta í tvennt; þær geta verið hjálplegar eða óhjálplegar. Þannig breytir það litlu um kostnað við bílaviðgerðina þó ég sitji í hnipri og hafi áhyggjur af fjárhagnum. Niðurstöðunni verður ekki breytt, hver sem hún verður. Það að sitja og hafa áhyggjur flokkast sem óhjálpleg hugsun vegna þess að hún er líkleg til að viðhalda vanlíðan. Hins vegar getur verið hjálplegt fyrir mig að læra á leiðarkerfi strætó, standsetja reiðhjólið og finna til þægilega gönguskó.

Ein leið til að fjarlægja sig erfiðum hugsunum er að nota forskeytið „ég tek eftir“ til dæmis ég tek eftir hugsunum um erfiðan fjárhag eða óþægindum samfara bílaleysinu. Með því að nota þetta forskeyti getum við fjarlægt okkur hugsunum okkar og þannig minnkar máttur þeirra.

Aðferðir ACT eru skýrar og aðgengilegar í notkun og með því að tileinka okkur þær getum við komið auga á hvað fjarlægir okkur markmiðum okkar og hvað þokar okkur í átt að þeim.

Hugrún Sigurjónsdóttir
sálfræðingur

Til baka