10.02.2023

Föstudagsmolar forstjóra 10. febrúar 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolarnir þessa vikuna en gestahöfundur er Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðsstjóri sem býður upp á góða hugvekju fyrir okkur öll.
Eins og flestum er kunnugt fagnar Reykjalundur 78 ára afmæli nú í febrúar og þrátt fyrir háan aldur hefur þessi síungi og síkáti öldungur sjaldan staðið frammi fyrir fleiri tækifærum og framtíðin er sannarlega spennandi. Í tilefni af afmælinu bjóðum við starfsfólki og gestum Reykjalundar í glæsilegan afmælishádegisverð næsta fimmtudag, 16. febrúar, þar sem starfsfólkið í eldhúsinu ætlar að töfra fram glæsilega máltíð fyrir okkur, roastbeef með villisveppasósu og súkkulaðimouse með þeyttum rjóma.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur
Pétur


Suma daga stend ég sjálfa mig að því að dæsa. Tel sjálfri mér trú um að það sé svo ógurlega mikið að gera hjá mér. Áreitið er endalaus, ég kemst aldrei í gegnum tölvupóstinn minn, dagurinn er undirlagður af fundum, enginn vinnufriður og svo mætti lengi telja.

En þvílíkt vanþakklæti. Í dag sem aðra daga naut ég þeirra forréttinda að vakna heil heilsu. Ég á þak yfir höfuðið, hef fasta vinnu, get veitt mér og mínum flest það sem okkur vanhagar um og því er það hreint og klárt vanþakklæti að kvarta og kveina, dæsa og tuða.

Það færist í vöxt að fólk setji sér markmið, oft einn mánuð í senn, og ögrar sér þá með einum eða öðrum hætti. Gott dæmi er t.d. „veganúar“ og „edrúar“ . Þar sem febrúar telur fæsta daga allra mánaða ársins finnst mér hann vera sérlega vel til þess fallinn að verða fyrir valinu til að ögra sjálfri mér. Ég ákvað að búningurinn sem ég klæðist þennan mánuðinn er búningur jákvæðni og þakklætis. Þar með er ég alls ekki að segja að alla jafna sé ég neikvæð og vanþakklát, nei því fer fjarri, en það er oft auðvelt að gleyma sér í amstri dagsins og missa sjónar á því fallega og góða sem er allt í kringum okkur.
Eftir því sem við eldumst breytast áherslur okkar og viðhorf til margra hluta. Það hljómar eflaust agalega miðaldra en í dag er ég svo einlægt þakklát fyrir margt sem ég hef ekki endilega spáð í áður eða jafnvel tekið sem sjálfsögðum hlut fram til þessa. Til viðbótar við mikið þakklæti mitt fyrir fjölskyldu og vini, almennt hreysti og heilbrigði mitt og minna nánustu þá er ég óskaplega þakklát fyrir allt það góða fólk sem ég starfa með frá degi til dags. Á Reykjalundi starfar fólk sem knúið er áfram af hugsjón, metnaði og vilja til að ná hámarks árangri í störfum sínum. 186 starfsmenn sem allir leggjast á eitt við að efla starfsemi endurhæfingar á Íslandi, lyfta hróðri Reykjalundar og eru flottar fyrirmyndir.

Það fer mikið fyrir umræðu í samfélaginu um mikla verðbólgu, háa stýrivexti, aukin álög, kaupmáttarrýrnun, bág kjör fjölmargra hópa, kjaramál og verkföll. Það verður að segjast eins og er að það hvílir ákveðinn drungi yfir öllum þessum málefnum og umræðan oft á tíðum harðskeytt og óbilgjörn. Við hér á Reykjalundi erum ekki með lausa samninga fyrr en 1. apríl n.k. en sá dagur nálgast óðum. Eins og þið munið þá gekk Reykjaundur í Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og situr undirrituð í kjaranefnd SFV. Það er von okkar að í krafti fjöldans getum við náð fram góðum samningum með hagsmuni starfsmanna okkar og stofnana að leiðarljósi.

Myndin sem fylgir föstudagsmolum dagsins í dag er af góðum samstarfsmönnum mínum, bæði núverandi og fyrrverandi. Þetta eru þeir Halldór Halldórsson, Sveinn Sveinsson og Ágúst Már Jónsson en með undraverðum hætti tókst mér að fá þá til að klæðast búningum á starfsmannagleði eitt árið og mér þykir alltaf jafn vænt um þessa góðu menn og skemmtilegu mynd. Munum eftir að brosa til hvers annars því að eitt bros getur jú dimmu í dagsljós breytt.

Takk fyrir að vera hluti af dýrmætum mannauði Reykjalundar.

Kær kveðja og áfram við,
Guðbjörg

Til baka