03.02.2023

Föstudagsmolar forstjóra 3. febrúar 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Reykjalundur er 78 ára!
Það er gaman að byrja molana í dag á Reykjalundi sjálfum því síðasta miðvikudag, 1. febrúar, fagnaði starfsemin hér á Reykjalundi 78 ára afmæli. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar en eftir stendur glæsileg saga sem er langt frá því að vera búin og forréttindi eru að fá að taka þátt í og skapa. Til fróðleiks fylgir hér stutt lýsing á þessum tæplega áttræða en síunga öldungi, eins og við lýsum honum í dag:
Reykjalundur er heilbrigðisstofnun í eigu SÍBS og hófst starfsemin árið 1945. Reykjalundur er í dag stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar öllu landinu. Þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að bættum lífsgæðum, aukinni færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Endurhæfing Reykjalundar er byggð upp samkvæmt alþjóðlegum, klínískum leiðbeiningum. Meðferðin einkennist af þverfaglegri samvinnu fagfólks sem myndar átta sérhæfð teymi, sem starfrækt eru á dagvinnutíma að mestu. Auk þess er þverfagleg legudeild, Miðgarður, opin allan sólarhringinn. Einnig er fjöldi gistirýma í boði fyrir sjúklinga sem þess þurfa vegna aðstæðna sinna. Markmið endurhæfingar er að endurheimta fyrri getu eða bæti heilsu. Um 110-130 sjúklingar sækja þjónustuna á degi hverjum. Á hverju ári fara um það bil 1.300 manns í gegnum endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi, flestir í 4-6 vikur í senn. Auk þess kemur fjöldi sjúklinga í viðtöl á göngudeild á hverju ári.
Til hamingju með afmælið Reykjalundur!

Loksins geta Hollvinir Reykjalundar komið saman
Á morgun, laugardaginn 4. febrúar kl 14, blása Hollvinasamtök Reykjalundar til langþráðs aðalfundar samtakanna en aðalfundur samtakanna hefur fallið niður síðustu ár vegna Covid-faraldursins. Við Bryndís Haraldsdóttir, formaður Hollvinasamtakanna, rituðum saman af þessu tilefni stutta grein um mikilvægi Hollvinasamtakanna sem birtist á visir.is í dag. Þar kemur meðal annars fram að  Hollvinasamtök Reykjalundar eru samtök fólks sem þykir vænt um Reykjalund og er tilbúið til að leggja sitt af mörkum til að efla starfsemina og styrkja frekari uppbyggingu hennar. Margir eiga þessari stofnun líf sitt að þakka, eða eiga vini og ættingja sem hafa komist aftur út í lífið sem virkir þátttakendur eftir dvöl á Reykjalundi. Um fjögur hundruð manns eru í Hollvinasamtökunum og við værum svo sannarlega til í að fjölga þeim. Tilgangur Hollvinasamtakanna er að styðja við þá endurhæfingarstarfsemi sem fram fer á vegum Reykjalundar og er það gert með þrennum hætti: Með fjáröflun og fjárstuðningi frá hollvinum og öðrum aðilum, með kynningarstarfsemi á opinberum vettvangi og með ýmsum öðrum stuðningi við starfsemi Reykjalundar.
Samtökunum hafa borist miklar og góðar gjafir frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum á undanförnum árum. Hollvinasamtökin hafa staðið fyrir kaupum á ýmsum tækjum sem gagnast starfseminni vel. Hollvinasamtökin voru stofnuð í lok árs 2013 og hafa frá þeim tíma gefið Reykjalundi gjafir fyrir um 70 milljónir.
Á fundinum munu Hollvinir einmitt afhenda Reykjalundi hjartarafrit og sex senda af fullkomnustu gerð, til að fylgjast með hjartalínuriti einstaklinga í þjálfun en gjöfin er að verðmæti tæplega 4 milljónir króna.
Hollvinir eru hvattir til að mæta og nýir félagar velkomnir. Fundurinn verður haldinn í hátíðarsal Reykjalundar.

Fundir forstjóra framundan
Mig langar að geta þess að núna í febrúar og mars ætla ég að fá að vera gestur á fundum allra faghópa og deilda hjá okkur. Þó boðleiðir séu stuttar hér á Reykalundi, er mikilvægt fyrir forstjóra að vera í góðum tengslum við sem flesta og hafa sem besta tilfinningu fyrir ólíkum sjónarhornum þegar ákvarðanir eru teknar. Fundirnir verða kynntir betur þegar nær dregur en á dagskránni verða nokkur praktísk mál úr starfseminni af minni hálfu en svo þarf að gæta þess að hafa góðan tíma til ræða þau mál sem ykkur finnst vera efst á baugi. Fundir sem þessir eru með því skemmtilegra í mínu starfi svo ég hlakka til að hitta ykkur.

Síðast en ekki síst vil ég minnast á að myndin með molunum í dag var tekin í kveðjuboði Hafdísar Gunnbjörnsdóttur, hjúkrunarfræðings. Hafdís lét af störfum hjá okkur nú um mánaðarmótin og lýkur þar með glæstri starfsævi sem við hér á Reykjalundi fengum að njóta í tæp 40 ár. Þökkum Hafdísi enn og aftur kærlega fyrir samstarfið og góð störf í þágu Reykjalundar.
Á myndinni eru frá vinstri: Undirritaður, Svava Guðmundsdóttir, Guðlaug Jóhannesdóttir, Hafdís sjálf, Ólöf Árnadóttir og Aðalbjörg Albertsdóttir.

Góða helgi!
Pétur

Til baka