30.01.2023

Föstudagsmolar 27. janúar 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér fylgja föstudagsmolar dagsins en gestahöfundur í dag er Hefna Óskarsdóttir iðjuþjálfi og formaður verkjateymis Reykjalundar, sem er með áhugaverðar vangaveltur um að passa upp á sjálfan sig.
Njótið helgarinnar og hafið það gott!

Bestu kveðjur
Pétur


Föstudagsmolar 27. janúar 2023 - Að passa upp á sjálfan sig…

Fyrir rúmum þremur árum flutti ég í borgina til þess að elta draumana mína og reyna á hversu fleygir vængirnir mínir væru. 

Þetta er sjálfsagt ein af betri hugmyndum sem ég hef fengið því árin mín þrjú hafa auðgað líf mitt á svo miklu viðameiri hátt en mig óraði fyrir.

Ég hef fengið að læra af ótrúlega flottum og faglegum sérfræðingum, ég hef fengið að vera hluti af skemmtilegri, lausnarmiðaðri, umvefjandi og fáránlega hugmyndaríkri heild sem svo sannarlega hefur hjálpað mér að vaxa - bæði sem manneskja og fagmaður. 

Mér finnst Reykjalundur vera hlaðborð þegar kemur að tækifærum og möguleikum til að þróa sig áfram í starfi og ég á oft mjög erfitt með að setja sjálfri mér mörk. Ég hlakka til að mæta í vinnuna á morgnanna og þessi vinna gefur lífinu svo sannarlega bæði tilgang og gildi.

Þetta nýfengna frelsi, þessi gleði og ánægja kemur samt ekki andskotalaus. Það er að segja, hún kemur með pínu aukakostnaði sem ég hafði ekki alveg séð fyrir. Að keyra áfram á fullum krafti með of marga bolta á lofti er ávísun á vesen, svo ekki sé meira sagt. Maður keyrir á vegg - já eða eða tvo. Vinna innan heilbrigðisgeirans getur auðveldlega tekið toll af manni, sérstaklega ef staðan er þannig að verkefnin aukast meðan viðveran minnkar. Ég komst að því að þrátt fyrir almenna starfsánægju þá kallar svoleiðis stress yfirleitt ekki alveg það besta fram í manni - og verður þar að auki ekki til þess að öðrum líði vel í kringum mann.

Til að viðhalda almennri lífs- og starfsgleði hef ég þurft að hugsa marga hluti upp á nýtt. Fyrir utan þetta hefðbundna, eins og að forgangsraða því sem skiptir mig mestu máli í lífinu, þá er það einkum þrennt sem ég hef þurft að breyta hjà mér, bæði heima fyrir og í vinnunni:

1. Að passa upp á gleðina. Þó gleði sé ein af mínum lífsgildum þá er hún eitthvað sem týnist - eða gleymist - í daglegu amstri. Ég þarf því að rækta hana og æfa til að halda henni hjà mér. Ég veit að þegar fíflunum fer að fjölga í kringum mig þà er ég búin að tapa gleðinni. Þá þarf ég að hafa fyrir því að heilla hana til mín aftur með með því að gera eitthvað skemmtilegt. Jafnvel þó ég nenni því ekki. Lífið er nefnilega svo fjári þungt þegar gleðin hverfur. Rannsóknir sýna líka að gleðin eflir heilsu, dregur úr kvíða, minnkar streitu og dregur meira að segja úr verkjum. Svo það er kannski ekki skrítið að mér sé mikið í mun að passa upp á gleðina! 

2. Að segja já þegar mig langar mest að segja nei…. bara af því að ég er hrædd, feimin eða ofhugsa hlutina. Að segja já við hlutum sem skipta mig máli, sem auðga mitt líf, gefa mínu lífi tilgang og gerir kannski ekkert annað en að gefa mér gleði. Og gera svo mitt besta til að fá ekki samviskubit yfir því.

3. Að segja nei þegar mig langar mest til að segja jà… út af meðvirkni og til að valda ekki öðrum vonbrigðum. Sagan segir að engin verði heilbrigðisstarfsmaður nema vera meðvirkur inn við beinið - og það á svo sannarlega við um mig. Þó það sé erfitt þà reyni ég að æfa nei-in mín eins vel og ég get. Lífið er nefnilega aðeins of dýrmætt til að sóa því í að uppfylla eingöngu annarra manna drauma! 

Markmiðið með þessum skrifum er ekki að setja neinum lífsreglurnar, heldur kannski bara aðeins að minna á hversu mikil áhrif við getum haft á alla í kringum okkur, heimilið og vinnustaðinn - bara með því að passa (eins og gæsamamma) upp á okkur sjálf. Ég vona að þetta ár verði árið sem þú setur sjálfa/n þig í forgang, ræktar gleðina og leyfir styrkleikunum að blómstra. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá líður okkur öllum langbest í kringum þá sem líður vel með sjálfa sig ❤️

Með vinsemd og virðingu,
Hrefna Óskarsdóttir

Til baka