26.01.2023

Vígsla Hildarstofu á Reykalundi.

Á síðasta ári andaðist Hildur Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur í kjölfar erfiðra veikinda. Hún var sjúklingur á Reykjalundi um tíma. Nokkru fyrir andlátið komu Hildur og Gísli, eiginmaður hennar, að máli við okkur hér á Reykjalundi þar sem þau tilkynntu að þau vildu gefa Reykjalundi veglega gjöf sem endurspeglaði tengingu við hjúkrun. Ákveðið var að gjöfin yrði tengd starfsemi lunganendurhæfingarteymis Reykjalundar en það meðferðarteymi sinnti Hildi þegar hún var á Reykjalundi. Ástæða gjafarinnar er að í veikindum Hildar sagðist hún hafa notið þjónustu víðvegar í heilbrigðiskerfinu en þegar hún var á Reykjalundi og naut þjónustu Lungateymis, taldi hún sig aldrei fengið viðlíka þjónustu og umhyggju.
Ákveðið var að gjöfin skyldi vera að útbúa með veglegum hætti, tvö hvíldarherbergi sem lungnasjúklingar nýta sér þegar þeir sækja meðferð á Reykjalundi. Hvíldarherbergin voru máluð með fallegum litum, búin þægilegum hvíldarstólum og ýmsum búnaði sem gera herbergin mjög hlýleg eins og heyrnatól, spjaldtölvur, örbylgjuofn, teppi og grjónapúðar. Annað herbergið, sem er sérstaklega ætlað sem hvíldarherbergi fyrir einn einstakling í einu, mun framvegis nefnast Hildarstofa en hitt herbergið verður fallegt hvíldarherbergi í sama stíl og Hildarstofa en þar geta nokkrir sjúklingar dvalið í einu.
Auk glæsilegrar gjafar frá þeim hjónum, gaf Oddfellow-stúkan Þorfinnur Karlsefni veglega upphæð til fjármögnunar framkvæmdanna en Gísli sjálfur hélt utan um öll mál með myndarbrag.

Í dag, á fæðingardegi Hildar, var gjöfin afhent og Hildarstofa ásamt öðru hvíldarherbergi á Reykjalundi vígð formlega. Meðfylgjandi myndir voru teknar við það tækifæri en til vígslunnar mættu auk stjórnenda og starfsfólks lungnateymis Reykjalundar, fulltrúar fjölskyldu Hildar, samstarfsfélagar úr hjúkrun og félagar úr Oddfellowstúkunni Þorfinnur Karlsefni.
Við á Reykjalundi þökkum Gísla, fjöldskyldu Hildar og félögum í Oddfellowstúkunni Þorfinni Karlsefni kærlega fyrir höfðinglegar gjafir og hlýhug í okkar garð. Hildarstofa og hvíldarherbergin bæði munu sannarlega nýtast mjög vel í starfsemi lungnateymisins og Reykjalundar.

Til baka