25.01.2023

Fundað með heilbrigðisráðherra um húsnæðismál Reykjalundar.

Í morgun gengu fulltrúar Reykjalundar og SÍBS, sameiginlega á fund heilbrigðisráðherra. Fundarefnið var staða húsnæðismála á Reykjalundi.
Reykjalundur er eins og kunnugt er óhagnaðardrifin heilbrigðisstofnun í eigu SÍBS og hófst starfsemin árið 1945. Reykjalundur er í dag stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar öllu landinu.
Rekstrartekjur Reykjalundar koma fyrst og fremst frá þjónustusamningi um þverfaglega endurhæfingu við Sjúkratryggingar Íslands en þessi framlög eru ætluð til veitingu þjónustu en ekki viðhalds húsnæðis. Nýbyggingar og stærra viðhald á húsnæði Reykjalundar hefur því að meginhluta verið fjármagnað með hagnaði frá Happdrætti SÍBS. Ljóst er að þessar tekjur til viðhalds hafa ekki dugað nema til brots af eðlilegu viðhaldi bygginganna. Reykjalundur hefur kallað eftir sérstökum greiðslum frá ríkinu til að mæta þessu, enda fordæmi fyrir því að ríkið greiði leigu til heilbrigðisstofnana sem eru í eigu annarra en ríkis og sveitarfélaga.
Þær lausnir sem blasa við að okkar mati og kynntar voru ráðherra eru eftirfarandi: Annars vegar þarf að gera úttekt á ástandi húsnæðis Reykjalundar bæði út frá vinnuverndarsjónarmiði og út frá því hvort húsnæði uppfylli kröfur um veitingu heilbrigðisþjónustu. Í kjölfar úttektarinnar mun þurfa að ráðast í nauðsynlegar bráðaframkvæmdir á húsnæðinu. Hins vegar, til að tryggja fyrirsjáanleika og fyrirbyggjandi viðhald til framtíðar, er brýnt að sem fyrst verði bætt við leigugreiðslum í samning Reykjalundar í samræmi við bókun 1 í framlengingu núverandi þjónustusamnings: „Á samningstímanum munu samningsaðilar skoða sérstaklega húsnæðiskostnað og hvernig eigi að standa straum af honum.“
Það er von Reykjalundar og SÍBS að vinna markvisst að úrlausn þessara mála með heilbrigðisráðuneytinu og stjórnvöldum.

Til baka