20.01.2023

Föstudagsmolar forstjóra 20. janúar 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Gleðilegan bóndadag!
Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur hins gamla þorramánaðar. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er talað um þá skyldu hvers bónda að bjóða þorra velkominn með því að fara fyrstir á fætur, vera klæddir skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa.
Sennilega gera þetta fæstir í dag en hefðirnar hafa breyst og það bara er skemmtilegt hversu þorrablót eru orðin stór þáttur í menningu landsins. Þessi fyrsta helgi þorra er líklega að verða mesta veisluhelgi landsins en Þorrablót eru orðin stór viðburður í flestum bæjarfélögum landsins. Hámarkið er þessa helgina þar sem meðal annars stórt blót verður hér í Mosfellsbænum og stærsta þorrablót sögunnar, með um 2.500 þátttakendum, verður í Kópavogi í kvöld.
Það er nú varla maturinn sem er aðalatriðið heldur eru það nú frekar gömlu gildin um samveru og þörfina fyrir félagsleg samskipti sem toga í fólk til að mæta.
Vonandi njótið þið þorrans vel hvort sem þið farið á stór eða lítil þorrablót, eða sleppið alveg þorramatnum.

Hlein orðið sjálfstætt félag.
Á síðasta ári ákvað stjórn SÍBS, eigandi Reykjalundar og Hleinar að starfsemi Hleinar yrði gerð að sjálfstæðu félagi. Hlein er hjúkrunarsambýli fyrir fatlað fólk þar sem sjö einstaklingar dvelja, aðstoðar við daglegt líf. Markmið starfseminnar er fyrst og fremst að hjálpa íbúum að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er. Á heimilinu búa sjö einstaklingar og hefur hver fyrir sig eigin íbúð sem sniðin er að þörfum viðkomandi. Hlein er sjálfstætt og óhagnaðardrifið félag í eigu SÍBS og frá og með áramótunum er það sambærilegt félaginu Reykjalundur endurhæfing ehf. sem stofnað var árið 2020 um endurhæfingarþjónustuna á Reykjalundi. Starfsemi Hleinar er fjármögnuð með sérstökum þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands, sem er annar samningur en gildir um þverfaglega endurhæfingu Reykjalundar. Samningnum fylgir meðal annars sérhæfð kröfulýsing sem lýsir nokkuð nákvæmlega þeim kröfum um starfsemi, gæði og þjónustu sem Hlein skuldbindur sig til að veita þeim sem þar dvelja. Þó mikið og gott samstarf hafi ríkt milli Reykjalundar og Hleinar og ég viti að allir leggist á eitt svo að það góða samstarf haldi áfram, er mjög mikilvægt að skýr skil séu á milli reksturs Reykjalundar og Hleinar. Þannig að annars vegar að fjármunir Reykjalundar í endurhæfingu séu ekki  notaðir í að niðurgreiða þjónustu á Hlein og hins vegar að fjármunir Hleinar séu notaðir fyrir þjónustu við íbúana en ekki til að niðurgreiða endurhæfingarþjónustu Reykjalundar. Í daglegu starfi ætti hvorki starfsfólk né íbúar að finna fyrir sérstakri breytingu. Í samræmi við þetta var Anný Lára Emilsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Hleinar og nú í vikunni kom stjórn Hleinar saman til fyrsta fundar. Í stjórn Hleinar eru Anna Stefánsdóttir formaður og Haraldur Sverrisson. Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar er varamaður. Myndin með molunum í dag var einmitt tekin á fundinum og eru á henni frá vinstri: Pétur, Anna, Haraldur og Anný Lára.

Aðalfundur Hollvinasamtaka Reykjalundar
Hollvinasamtök Reykjalundar munu boða til aðalfundar laugardaginn 4. febrúar kl 14. Í lögum félagsins segir að tilgangur félagsins sé að styðja við þá endurhæfingarstarfsemi sem fram fer á vegum Reykjalundar í samráði við yfirstjórn Reykjalundar. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með: Fjáröflun og fjárstuðningi frá hollvinum og öðrum aðilum, kynningarstarfsemi á opinberum vettvangi og öðrum stuðningi við starfsemi Reykjalundar. Félagið hefur legið í láginni meðan Covid faraldurinn stóð yfir en nú er ætlunin að blása lífi í samtökin. Samt sem áður gáfu Hollvinir Reykjalundar nokkrar glæsilegar gjafir til Reykjalundar á síðasta ári og erum við þeim mjög þakklát. https://www.reykjalundur.is/um-reykjalund/hollvinasamtok/
Við hvetjum því alla til að ganga í Hollvinasamökin og þá sem geta að mæta á aðalfundinn enda bein tengsl á milli velgengni Hollvinasamtakanna og aðstoðar þeirra við starfsemina hér á Reykjalundi.

Að lokum vil ég geta þess að sú umræða sem er í gangi varðandi hugsanleg verkföll hjá Stéttarfélaginu Eflingu á ekki við okkur hér á Reykjalundi. Hjá okkur eru sannarlega nokkrir starfsmenn sem eru félagsmenn í Eflingu en þeir samningar sem hafa verið í fréttum tengjast Samtökum atvinnulífsins, sem Reykjalundur er ekki aðilar að. Okkar samningar eru ennþá í gildi.

Njótið helgarinnar og ÁFRAM ÍSLAND!!!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka