13.01.2023

Föstudagsmolar forstjóra 13. janúar 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan eru föstudagsmolarnir í dag en gestahöfundur er Anna Stefánsdóttir, formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf.
Þó það sé föstudagurinn þrettándi þá óska ég ykkur gleðilegs dags og góðrar helgar - og auðvitað ÁFRAM ÍSLAND!!!

Bestu kveðjur
PéturÁgæta starfsfólk,

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samstarfið á liðnum árum.

Árið 2020 ákvað stjórn SÍBS að stofna einkahlutafélag um rekstur heilbrigðisþjónustu á Reykjalundi, Reykjalund endurhæfingu ehf. RLE. Samþykktir fyrir einkahlutafélagið Reykjalundur endurhæfing ehf. voru samþykktar á hlutahafafundi 15. maí 2020. Eigandi og eini hluthafi einkahlutafélagsins er SÍBS. Félagið er óhagnaðardrifið. Rekstur einkahlutafélagsins er alfarið á ábyrgð stjórnar RLE, sem síðan felur forstjóra framkvæmd á rekstrinum í samræmi við samþykktir stjórnar.

Tilgangur félagsins er að reka heilbrigðisstofnun, sem hefur það hlutverk að veita alhliða endurhæfingarþjónustu á sviði heilbrigðis,-félags,- forvarna,- og fræðslumála til að bæta færni, virkni og þátttöku einstaklinga í daglegu lífi, ásamt því að sjá um rekstur fasteigna sem því tengist og eru nauðsynlegar til rekstrar heilbrigðisstofnunarinnar.
Óhætt er að segja að rekstur félagsins hafi einkennst af Covid19 faraldrinum og viðbrögðum við afleiðingum hans fyrsta starfsárið. Á mánaðarlegum fundum stjórnar kynnti forstjóri stjórn stöðuna á faraldrinum og áhrif hans á starfsemi RLE. Stjórnin metur mikils framlag starfsmanna til að aðlaga starfsemina, oft við erfiðar aðstæður, að stöðugum breytingum og uppákomum vegna smita innan starfseminnar og nýrra fyrirmæla stjórnvalda til að halda faraldrinum í skefjum. Starfsfólk Reykjalundar á heiðurinn af þeim árangri sem náðist í baráttunni við faraldurinn innan stofnunarinnar.

Strax frá upphafi var ljóst að rekstur RLE væri fjárhagslega í járnum. Nokkur halli hefur verið á rekstrinum frá stofnun RLE sem sett hefur sitt mark á stjórnarstarfið og starfsemi stofnunarinnar. Stjórnin setti sér það markmið að ná rekstrinum í jafnvægi við árslok 2023. Undanfarna mánuði hefur stjórnin fjallað reglulega um fjármálin og rætt ýmsar leiðir til að ná markmiðum sínum um jafnvægi í rekstrinum. Stjórnin hefur, ásamt forstjóra, átt samtöl við hagaðila starfseminnar. Aðallega eru það Sjúkratryggingar Íslands en einnig við heilbrigðisyfirvöld með það að markmiði að kynna verðmætt faglegt starf sem unnið er á Reykjalundi og mikilvægi þess innan heilbrigðisþjónustu í landinu. Að frumkvæði forstjóra bauð stjórnin heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni, í heimsókn á vormánuðum 2022 til að kynna honum starfsemina og heimsótti hann nokkrar deildir stofnunarinnar. Úrdráttur úr fundargerðum stjórnar er birtur á heimasíðunni.

Fyrsti aðalfundur RLE var haldin á haustmánuðum 2022 nokkru seinna en fyrirhugað var vegna þess að dregist hafði að ganga frá aðilaskiptum milli Reykjalundar endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS og RLE. Á aðalfundinum flutti formaður skýrslu stjórnar og ársreikningur ársins 2021 var kynntur og samþykkur. Regína Ástvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar kom ný í stjórnina í stað Haraldar Sverrissonar.  Fundargerð aðalfundar ásamt skýrslu stjórnar er birt á heimasíðu RLE. Í stjórninni sitja nú Anna Stefánsdóttir, formaður, Gunnar Ármannsson og Regína Ásvaldsdóttir. Varamaður er Arna Harðardóttir. Á meðfylgjandi mynd má sjá stjórnina en frá vinstri eru það Gunnar, Regína, Arna og Anna.
Stjórnin ákvað á síðasta fundi sínum á árinu 2022 að hefja vinnu við að setja starfsemi REL nýja stefnu, en það er eitt af hlutverkum stjórnarinnar samkvæmt samþykktum félagsins. Formanni ásamt forstjóra var falið að ræða við ráðgjafafyrirtækið Strategía um að aðstoða við verkefnið. Strategía hefur mikla reynslu af stefnumótin innan heilbrigðisstofnana og var starfsstjórn Reykjalundar til aðstoðar við gerð nýs skipurits á vormánuðum 2020. Við væntum mikils af því samstarfi og treystum að starfsfólk RLE taki virkan þátt við stefnumótunnarvinnuna.

Það er óhætt að segja að starf stjórnar þessi rúm tvö ár hafi verið áhugavert og lærdómsríkt. Við höfum miklar væntingar til áframhaldandi þróunar á starfsemi RLE og sjáum fyrir okkar að endurhæfingarstefna stjórnarvalda verði leiðarljós í þeirri vinnu. Þar liggja tækifæri til framtíðar.

Anna Stefánsdóttir,
formaður stjórnar RLE

Til baka