06.01.2023

Föstudagsmolar forstjóra 6. janúar 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Það á sannarlega vel við á þrettánda degi jóla að óska ykkur gleðilegs og gæfuríks árs. Vonandi hafa sem allra flest ykkar náð að njóta hátíðanna sem best og upplifa hátíðarnar loksins án samkomutakmarkana og óvenjulegs ástands eins og verið hefur síðustu tvær jólahátíðir. Jafnframt þakka ég enn og aftur fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á síðasta ári. Það er ekki annað hægt en að vera fullur tilhlökkunar í garð þessa nýja árs. Okkar hér á Reykjalundi bíður fjöldi spennandi verkefna í endurhæfingunni, og nú fáum við vonandi heilt starfsár án truflanna Covid veirunnar. Ég hef áður sagt að ég hef kynnst Reykjalundi meira og betur síðustu sex mánuði en árin tvö þar á undan í Covid-takmörkunum, en ég er einmitt búinn að starfa á Reykjalundi í tvö og hálft ár um þessar mundir.

Starfsmannafundur í hádeginu 11. janúar.
Ég vil minna á almennan starfsmannafund sem boðaður hefur verið í hádeginu næsta miðvikudag, 11. janúar. Þetta er í raun almennur upplýsingafundur hjá okkur í framkvæmdastjórninni en í upphafi árs er fróðlegt og gott að koma saman, fara yfir ýmis atriði um starfsemina á nýju ári og helstu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Kveðjuboð fyrir gott fólk.
Í gær héldum við kveðjuboð fyrir fimm starfsmenn sem látið hafa af störfum hjá okkur, flest í lok síðasta árs. Þetta er Ragnhildur Erna Þórðardóttir ritari, Ingibjörg Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur, Rósa Hauksdóttir talmeinafræðingur, Sólrún Jónsdóttir sjúkraþjálfari og Karl Reynir Einarsson læknir. Að beiðni þeirra lofuðum við að sleppa öllum ræðuhöldum um ágæti þeirra í kveðjuboðinu en ég vil þó nota þetta tækifæri og þakka þeim öllum fyrir góð og gegn störf í þágu Reykjalundar í gegnum tíðina ásamt því að óska þeim góðs gengis á nýjum brautum lífsins. Það var gaman að sjá hve mörg ykkar tóku þátt í kveðjuboðinu í gær, takk fyrir að gefa ykkur tíma til koma og líta við. Á myndinni með molunum í dag eru einmitt við Guðbjörg mannauðsstjóri ásamt (frá vinstri) Ragnhildi, Sólrúnu, Rósu og Ingibjörgu. Karl Reynir hafði ekki tök á að vera með í kveðjuboðinu.

Þó það sé gott að komast í frí, finnst mér líka alltaf gott að koma til baka í hefðbundna daglega vinnurútínu. Nú er starfið okkar komið á fullt eftir fríið og því vil ég nota þetta tækifæri og bjóða ykkur velkomin aftur – jafnframt hlakka ég til að takast á við, með ykkur, hið spennandi ár 2023!

Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka