16.12.2022

Föstudagsmolar forstjóra 16. desember 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Jólin eru að koma…
Þessi vika er búin að vera ótrúlega skemmtileg enda er ég að upplifa aðventuna hér á Reykjalundi í fyrsta skipti með eðlilegum hætti. Þetta eru reyndar þriðju jólin sem ég er í starfi hér á Reykalundi en eins og allir sjálfsagt muna hefur jólahald síðustu tvenn jól verið með óvenjulegum hætti.
Á miðvikudaginn héldum við jólafund Reykjalundar sem ég var að upplifa í fyrsta skipti og tókst hann alveg ljómandi vel. Nánar er fjallað um hann sérstaklega á heimasíðu og facebook síðum Reykjalundar. Það er sannarlega ástæða til að senda góðar kveðjur enn og aftur til þeirra Halldóru, Kolbrúnar og Ragnheiðar sem við veittum sérstakar starfsaldursviðurkenningar á fundinum. Í hádeginu í gær var svo okkur starfsfólki, sjúklingum og öðrum gestum boðið upp á glæsilegt og gómsætt jólahlaðborð.  Í gær var líka haldið mjög svo fjörugt jólaball (staðfest) þar sem við starfsfólk, börn, barnabörn og fjölskyldur komum saman ásamt góðum gestum. Myndin frá molunum í dag er einmitt frá jólaballinu í gær.
Í gærkvöldi var mér svo boðið að vera gestur á jólabingói Hleinar. Það var ánægjuleg og falleg stund, sem er sannarlega til þess fallin að ýta undir jólaskapið hjá mér ásamt öllu hinu skemmtilega sem við höfum verið að gera.
Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim fjölmörgu úr okkar glæsta starfsmannahópi, sem komið hafa að því að gera þessa flottu viðburði að veruleika.

Örmyndböndin Heilsumolar
Gunnhildur Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍBS, vakti athygli mína á dögunum á áhugaverðu verkefni sem hún hefur unnið að undanfarið, sem nefnist Heilsumolar. Heilsumolar eru örmyndbönd með góðum ráðum um hvað hægt er að gera til að bæta heilsu og líðan. Hvert myndband svarar mikilvægri spurningu varðandi svefn, streitu, mataræði eða hreyfingu. Myndböndin eru unnin í samstarfi við Embætti landlæknis, Reykjavíkurborg, Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar, Heilsuveru, ÍSÍ, Rauða krossinn og Betri svefn, með styrk frá Lýðheilsusjóði.
Ef einhvern hefur áhuga á að kynna sér myndböndin betur er þau að finna hér:
https://sibs.is/heilsuefling/heilsumolar/

Starfsmannafundur 11. janúar
Í lokin langar mig að geta þess að í hádeginu miðvikudaginn 11. janúar ætlar framkvæmdastjórn að boða til almenns upplýsingafundar fyrir starfsfólk. Ég held að það sé góður siður í upphafi árs að koma saman, fara yfir ýmis atriði um starfsemina á nýju ári og helstu áskoranir fram undan.
Endilega takið tímann frá en formlegt fundarboð verður sent út á næstunni.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka