02.12.2022

Föstudagsmolar forstjóra 2. desember 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Endurlífgun og Neyðarnúmer Reykjalundar 585-2111
Í vikunni lauk röð endurlífgunarnámskeiða sem Reykjalundur bauð upp á fyrir okkur starfsfólk, hátt í 10 dagsetningar sem hægt var að velja um. Mjög góð þátttaka var og vil ég þakka öllum sem mættu til leiks enda mikilvægt fyrir alla að kynnast grunnatriðum og/eða halda sér við, hvort sem við erum heilbrigðismenntuð eða sinnum öðrum störfum. Umsjón hefur verið í höndum höndum læknanna Ingu Þráinsdóttur og Karls Kristjánssonar og sjúkraþjálfaranna Ragnheiðar Lýðsdóttur og Garðars Guðnasonar og vil ég færa þeim bestu þakkir fyrir framtakið.
Á myndinni með molunum í dag má einmitt sjá þær Ingu lækni og Ragnheiði sjúkraþjálfara með endurlífgunardúkkunni Önnu sem kom mikið við sögu á námskeiðunum.
Um leið vil ég minna á Neyðarnúmer Reykjalundar, 585-2111. Ef hringt er í þetta númer á dagvinnutíma virkjast símar hjá viðbragðshópi í húsinu og hjúkrunarfræðingum Miðgarðs, þannig að aðstoð á berast mjög fljótt. Skapist neyðarástand utan hefðbundins opnunatíma Reykjalundar er best að hringja í 112, enda mjög stutt í næstu starfsstöð sjúkrabíla og slökkviliðs, og líklegt að viðbragðsaðilar þar séu fljótari á staðinn en vakthafandi læknir okkar, sem auðvitað þarf líka að vera upplýstur.

Hollvinasamtök Reykjalundar
Í gær fundaði ég með stjórn Hollvinasamtaka Reykjalundar. Þetta er fjörugur og öflugur hópur með mikinn metnað fyrir starfseminni okkar. Í Covid faraldrinum hefur starfsemi Hollvinasamtakanna að mestu legið niðri en nú á að blása til sóknar og voru ýmsar hugmyndir ræddar, hvernig hægt er að styðja við bakið á starfseminni og koma inn með fjármagn til mikilvægra tækjakaupa. Í lok fundarins afhenti stjórnin okkur einmitt nýjan fjölþjálfa til að nýta í sjúkraþjálfunardeildinni. Þau munu svo koma aftur fyrir jól og afhenda formlega nýjan búnað sem þau eru að gefa í hjarta- og lungnarannsókn.
Sjálfsagt er að nýta þetta tækifæri til að minna okkur á að vera dugleg að hvetja alla til að ganga í Hollvinasamtök Reykjalundar og styðja þannig við bakið á starfseminni.
Það er ómetanlegt fyrir okkur að eiga svona bakhjarla eins og Hollvinasamtökin eru.

Jólahald á Reykjalund
Þar sem nú eru bara þrjár vikur til jóla langar mig að rifja upp helstu jóladagsetningar í starfinu. Eins og áður hefur verið kynnt, verður jólahlé á daglegu meðferðarstarfi milli jóla og nýárs hér á Reykjalundi, það er dagana 27.-30. Jólaskreytingargleði Starfsmannafélagsins verður svo á miðvikudaginn í næstu viku, 7. desember þar sem við öll höfum fengið spennandi verkefni við að skreyta húsnæðið og okkur sjálf. Gaman að sjá að mjög margir hafa þegar hafið störf við skreytingarnar. Árlegur jólafundur Reykjalundar fyrir starfsfólk er í hádeginu miðvikudaginn 14. desember og verður hann auglýstur sérstaklega. Reykjalundur býður svo okkur starfsfólki í jólamat í hádeginu fimmtudaginn 15. desember og síðar um daginn eða kl 16 smellum við í fjörugt jólaball fyrir okkur sjálf, börn og barnabörn. Vonandi náið þið sem flest að njóta.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka