25.11.2022

Föstudagsmolar forstjóra 25. nóvember 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Sveindís Anna Jóhannsdóttir, forstöðufélagsráðgjafi, sem flytur okkur ágætis hugvekju um vinnustaðamenningu og fleira á þessum “svarta föstudegi.”

Gleðilega aðventu og njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur
Pétur


Nú þegar aðventan er að ganga í hönd þá er vel við hæfi að líta inn á við og ígrunda hvernig við viljum hafa vikurnar fram að jólum bæði í vinnunni og með fjölskyldu og vinum. Einnig er við hæfi að líta yfir árið sem er að líða og horfa til komandi árs.

Við, starfsmenn Reykjalundar og stjórnendur, sköpum saman menningu okkar vinnustaðar. Menning innan vinnustaða hefur verið flokkuð sem veik eða sterk. Einkenni sterkrar menningar er að hún myndar samstöðu, veitir tilfinningu fyrir tilgangi, að einstaklingurinn sé sérstakur, eykur ánægju, helgun og gerir starfið skemmtilegra. Sterk menning styður við óformlegar hegðunarreglur og minnkar rugling á hlutverkum. Önnur einkenni sterkrar menningar er að starfsmenn eru virkir, vilja nýta þekkingar- og mannauð, eru næmir á líðan annarra, sýna siðferðisvitund í samskiptum og stuðla að heilbrigðu samfélagi. Menningin birtist í því að gildi, hlutverk, framtíðarsýn og athafnir geta eflt velferð starfsmanna og stutt fyrirtækið í að ná markmiðum sínum. Vinnueftirlitið er með ágætt ítarefni um gildi vinnustaðmenningar sem finna má á: https://vinnueftirlitid.is/vinnuumhverfi/oryggi-heilbrigdi/felagslegir-og-andlegir-thaettir/mikilvaegi-godrar-vinnustadamenningar. Jólahefðir Reykjalundar styðja svo sannarlega við að skapa jákvæða og sterka menningu. Langar mig sérstaklega að þakka starfsfólki mötuneytisins og stjórn starfsmannafélagsins fyrir þeirra framlag í þágu starfsmanna.

Góðir dagar koma og fara segir í dægurlaginu og ljóst að starfsmenn Reykjalundar hafa upplifað það á eigin skinni síðustu misseri. Ráðningarbann stofnunarinnar, erfiðleikar við að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa þegar þó er heimild fyrir ráðningu, lokun Starfsendurhæfingarsvið ásamt kappi við að uppfylla samning við SÍ hefur aukið álag og ýtt undir starfstengda streitu. Vinnustaðir eiga að greina og meta áhættuþætti starfa, þar á meðal félagslega áhættuþætti. Það er hluti af skriflegri áætlun um öryggi og heilbrigði vinnustaða. Vinnueftirlitið gaf út í fyrra Félagslegan vinnuumhverfisvísi sem hægt er að nýta við mat og greiningu. Vegna manneklu hafa félagsráðgjafar ekki náð að þjónusta öll svið Reykjalundar en hafa svo sannarlega bætt á sig málum frá ómönnuðum sviðum. Það eru rúmlega 100 mál sem hafa verið unnin aukalega  í gegnum beiðnakerfi. Vil ég þakka félagsráðgjöfum Reykjalundar dugnaðinn og starfsfólki teymanna fyrir samvinnuna og þolinmæðina. Nú er útlit fyrir að það fari góðir dagar í hönd hjá félagsráðgjöfum en árið 2023 lítur ljómandi vel út. Nadía Borisdóttir er komin úr leyfi en hún hefur síðustu sex mánuði unnið hjá Fjölmenningasetri við að aðstoða flóttafólk frá Úkraínu. Okkur þótti það vera siðferðisleg skylda okkar og ábyrgð að veita henni leyfi til annarra starfa þegar eftir hennar sérþekkingu var leitað til að móta og þróa þjónustu við flóttafólk. Nadía flutti erindi á málstofunni Heimurinn er hér sem haldin var í gær af Félagsráðgjafafélagi Íslands í samvinnu við fagdeild fjölmenningarfélagsráðgjafa og er mynd dagsins frá málstofunni. Hanna Lára Steinsson hóf í vikunni tímabundið starf og mun hún þjónusta Lungnasvið og Hjartasvið. Rakel María Oddsdóttir kemur til starfa á Reykjalund á ný í janúar og mun hún þjónusta Gigtarsvið og Efnaskipta- og offitusvið. Það er von á fjölgun hjá félagsráðgjöfum en Elínbjörg Ellertsdóttir mun fara í fæðingarorlof í janúar og er mikil tilhlökkun eftir félagsráðgjafakrílinu.

Félagsráðgjafar heimsóttu bæði Vinnumálastofnun og Umboðsmann skuldara á starfsdegi sínum og bættu sannarlega í þekkingarbrunninn og efldu tengslin sem mun skila sér í gæðum þjónustu til okkar skjólstæðinga. Framundan er markmiðið að njóta aðventunnar bæði hér í vinnunni og heima með fjölskyldunni.
Megi gæfa og gleði fylgja starfsfólki Reykjalundar á aðventunni.

Sveindís Anna Jóhannsdóttir,
forstöðufélagsráðgjafi

Til baka