18.11.2022

Föstudagsmolar forstjóra 18. nóvember 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Það er upplagt að byrja molana á að óska okkur öllum til hamingju með Vísindadag Reykjalundar sem er í dag. Myndin með molunum er einmitt af vísindaráði og rannsóknarstjóra: Frá vinstri eru Arna Elísabet Karlsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Inga Hrefna Jónsdóttir. Á myndina vantar eina úr vísindaráði, Sóleyju Guðrúnu Þráinsdóttur, sem var fjarverandi. Þær hafa staðið í ströngu undandarið við undirbúning dagsins og vil ég nota þetta tækifæri og þakka þeim kærlega fyrir.

Jólahlé á Reykjalundi milli jóla og nýárs
Framkvæmdastjórn hefur nú ákveðið að gert verði jólahlé á daglegu meðferðarstarfi milli jóla og nýárs hér á Reykjalundi, það er dagana 27.-30. desember. Þetta hefur verið gert síðustu ár þar sem fjöldi sjúklinga hefur jafnan óskað eftir að vera í leyfi frá meðferð sinni á milli jóla og nýárs. Þrátt fyrir að fjórir virkir dagar séu á milli jóla og nýárs í ár, teljum við að það margir sjúklingar óski eftir að vera alfarið í leyfi eða að hluta til þessa daga, að það sé til hagsbóta fyrir alla að hafa hlé á starfseminni þessa daga. Vegna þessa er mér ánægja að tilkynna að jólagjöf Reykjalundar til okkar starfsmanna er tveir auka orlofsdagar sem nota þarf milli jóla og nýárs (Hlein fær aðra jólagjöf líkt og venjulega). Fyrirkomulagið verður með sama hætti og í fyrra þar sem hægt var að velja um að vera í frí hina tvo dagana eða mæta í vinnu. Við sendum sérstakan upplýsingapóst um það fyrirkomulag á næstunni. Vonandi líst öllum vel á þetta.

Sumarhlé á Reykjalundi 2023
Eftir samráð við ýmsa hópa og aðila, hefur framkvæmdastjórn tekið ákvörðun varðandi sumarhlé í starfseminni fyrir næsta sumar (2023). Ástæður sumarhlés eru þær sömu og með jólahlé. Yfir hásumarið óskar fjöldi sjúklinga eftir leyfi frá meðferðarstarfi til að njóta sumarleyfis með fjölskyldu og vinum. Þetta er einnig hentugt tækifæri til að gefa starfsfólki kost á að komast í sumarfrí og þannig spara sumarafleysingar og komast sem mest hjá því að draga úr þjónustu yfir sumartímann.
Sumarlokun á Reykjalundi verður þrjár vikur, dagana 17. júlí – 7. ágúst 2023. Við þurfum í sameiningu að gæta þess að halda úti ásættanlegri starfsemi vikurnar beggja vegna við lokunina og ég veit að við finnum farsælar lausnir á því.

Af Covid og bólusetningum
Þó Covid sé sannarlega ekki að trufla daglegt líf okkar með sóttvarnatakmörkunum þessa dagana, erum við alltaf, öðru hverju, minnt á að orð eins og Covid-veikindi, smit og einkenni og að þessi orð eru ekkert horfin úr lífi okkar. Af og til koma upp smit í hópi starfsmanna eða sjúklinga þó það hafi, sem betur fer, ekki leitt til formlegra aðgerða af okkar hálfu. Vegna þessa vildi ég nú upplýsa ykkur að undanfarið hefur framkvæmdastjórn skoðað hvort mögulegt væri að framkvæma Covid bólusetningar hér í húsi og bjóða þá starfsfólki og sjúklingum upp á slíkt. Því miður er ekki mögulegt að fá bóluefnið hingað til okkar og því bendum við öllum á að hægt er að fara og fá fjórða skammt á heilsugæslustöð hvers og eins.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Föstudagsmolar forstjóra 18. nóvember 2022

Til baka