11.11.2022

Föstudagsmolar forstjóra 11. nóvember 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan fylgja föstudagsmolar dagsins en gestahöfundur í dag er Marta Guðjónsdóttir, rannsóknastjóri Reykjalundar. Það þarf ekki að koma á óvart að umfjöllunarefnin tengjast vísindastarfi og vísindadegi Reykjalundar, sem er einmitt eftir slétta viku, föstudaginn 18. nóvember.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur
Pétur


Vísindadagur Reykjalundar
Næstkomandi föstudag, 18. nóvember, verður árlegur vísindadagur á Reykjalundi haldinn í 19. sinn.  Loksins, loksins getum við haldið hann aftur í raunheimum eftir rafheimaveru á síðustu tveimur. Til að allir geti fylgst með verður dagurinn einnig í streymi. Dagskrá vísindadags samanstendur af sjö erindum með niðurstöðum rannsókna starfsmanna Reykjalundar og nemenda þeirra. Endurhæfingunni er ekkert óviðkomandi og því er fjölbreytnin mikil í verkefnunum sem kynnt verða.  Þau fjalla um spurningalista um hreyfingu og lífsgæði, áhrif útigöngu í kulda, langvinna lungnateppu og sjálfstjórnun, áhrif HAM hópmeðferðar og áhrif þolþjálfunar og sálfræðilegra ferla á einkenni hjá fólki með langvinn sjúkdómseinkenni eftir COVID-19. Dagskrána og ágrip erindanna má finna á heimasíðu Reykjalundar undir „vísindi“ auk þess sem viðburðurinn er kynntur á Facebook-síðu Reykjalundar.

Vísindi á Reykjalundi
Rúm 30 ár eru liðin frá því að niðurstöður fyrstu vísindarannsóknar á Reykjalundi voru kynntar á vísindaþingi og rúm 20 ár frá því að staða rannsóknarstjóra var sett á fót. Vísindaráð var stofnað og fyrsti vísindadagurinn haldinn árið 2004 og fyrsta úthlutun úr Vísindasjóði Reykjalundar var 2006. Á þessum tíma hafa 198 ágrip verið kynnt á vísindadegi Reykjalundar, 37 úthlutanir verið úr Vísindasjóði, 52 meistaranámsverkefnum verið lokið og á þriðja tug ritrýndra vísindagreina verið birtar í viðurkenndum tímaritum. Í dag er staðan að vísu þannig að Vísindasjóður Reykjalundar er tómur, sem er bagalegt því styrkir úr sjóðnum hafa oft gert gæfumuninn til að ljúka rannsóknarverkefnum. Þannig að ef einhver sem þetta les er aflögufær eða veit um leiðir til að afla sjóðnum fjár, þá má viðkomandi endilega hafa samband. Það er samt engan bilbug á Reykjalundarfólki að finna því nú um stundir eru þrír nemendur að vinna að meistaranámsverkefni á staðnum, tveir eru í doktorsnámi og fjölmörg rannsóknarverkefni eru í gangi.

Bóklestur til heilsubótar
Síðustu helgi sagði pistlahöfundurinn Sif Sigmarsdóttir í Fréttablaðinu frá rannsókn á áhrifum yndislesturs.  Sif skrifar: „Rannsókn við Yale-háskóla sýnir að þeir sem lesa skáldskap hálftíma á dag lifa að meðaltali tveimur árum lengur en aðrir. Slíkur ávinningur sást ekki við lestur á öðru efni, svo sem á dagblöðum eða tímaritum“.  Ég persónulega er ekki í neinum vafa um áreiðanleika þessara niðurstaðna og hvet fólk til að gefa sér tíma fyrir þessa ódýru og góðu heilsurækt. Fjölbreyttur bókakostur er á bókasöfnum landsins og kostnaðurinn við bókasafnsskírteini ætti að vera á flestra færi. Ganga utandyra, sundsprettur (já, smá í heita pottinn líka) og bókalestur hressir, bætir og kætir.

Góðar stundir,
Marta Guðjónsdóttir
rannsóknarstjóri.

Til baka