07.11.2022

Föstudagsmolar forstjóra 4. nóvember 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Styrkja leitað fyrir nýtt stundartöflukerfi
Undanfarnar vikur hefur starfshópur um nýtt stundartöflukerfi (meðferðarstjórnunarkerfi) verið að störfum. Í honum sitja framkvæmdastjórarnir Óskar og Ólöf ásamt Garðari sjúkraþjálfara og Hrefnu iðjuþjálfa. Hópurinn hefur það verkefni að finna framtíðarlausn í utanumhaldi á stundartöflum í daglegu starfi Reykjalundar, en eins og ykkur er sjálfsagt vel kunnugt er núverandi kerfi, DIANA, ekki lengur þjónustað af umsjónaraðilum nema að mjög litlu leiti og allri þróun á því kerfi var hætt fyrir þó nokkrum árum. Við höfum því lagt mikla vinnu í að finna nýtt og heppilegt kerfi fyrir Reykjalund. Það er því gaman að segja frá því að í vikunni sendu Reykjalundur og aðilar sem eru að þróa sjúkraskrárkerfið Leviosa, saman umsókn um styrk í sjóðinn Fléttan, en sá sjóður veitir styrki til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Fléttan mun úthluta 60 milljónum króna til að mæta félags- og heilsufarslegum afleiðingum COVID-19 á þeim forsendum að fjármununum sé varið í að tryggja innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að auka skilvirkni og bæta þjónustu. Við hér á Reykjalundi teljum að þetta verkefni okkar falli mjög vel að þessum skilmálum og bindum talsverðar vonir við að styrkur fáist. Gangi það eftir mun verða farið af stað í að þróa sjálfstæða meðferðarstjórnunareiningu sem mun taka við af stundartöflukerfi DIANA. Slíkur styrkur yrði sannarlega mikilvægt skref fyrir okkur til að finna farsælar lausnir.

Fundað með trúnaðarmönnum

Skilvirkt kerfi trúnaðarmanna skipar sannarlega mikilvægan sess í starfsemi allra fyrirtækja og stofnanna. Þetta á bæði við fyrir vinnunveitandann ekki síður en starfsfólkið sjálft. Fyrir tveimur árum komum við á þeim sið að forstjóri og mannauðsstjóri myndu funda einu sinni til tvisvar á ári með trúnaðarmönnum þeirra stéttarfélaga sem tengjast Reykjalundi. Markmiðið er að fara yfir það sem er efst á baugi í starfseminni og heyra hljóðið í fólki. Mér finnst þetta hafa tekist mjög vel til og við Guðbjörg mannauðsstjóri höfum einmitt boðað trúnaðarmenn okkar til slíks fundar nú um miðjan nóvember.

Nóg að gerast á Reykjalundi
Þó ég sé búinn að vera í starfi hér á Reykjalundi í rúm tvö ár hef ég stundum sagt að síðustu fjóra mánuði hafi ég kynnst Reykjalundi betur heldur en fyrstu tvö árin mín hér í starfi. Ástæðan er sú að við höfum nánast allan tímann verið með takmarkanir og truflanir á daglegri starfsemi í skugga Covid-faraldursins. Þó faraldrinum sé hreint ekki lokið hér á landi, hefur samt verið frábært að sjá og upplifa hvað allt er að lifna við hjá okkur í starfi og leik undanfarna mánuði. Hér er líka ótrúlega margt að gerast, bæði hvað varðar faglegt starf en ekki síst félagslega. Það er mikið líf og fjör eins og hægt er að sjá á innri síðum Reykjalundar og Facebook. Myndin með molunum í dag var einmitt tekin á hrekkjarvökuhátíðinni síðasta mánudag, en þá klæddi starfsfólk iðjuþjálfunar sig í viðeigandi klæðnað og átti hræðilega skemmtilegan dag. Flestir faghópar okkar eru með fróðlega og skemmtilega starfsdaga þessi misserin og af því sem framundan er, má nefna að sjálfur mun ég sækja ásamt mörgum ykkur endurlífgunarnámskeið á næstunni, þann 16. nóvember verða gæðastjórar með áhugaverðan fyrirlestur fyrir starfsfólk um starfsemi skráningarmiðstöðvar og ekki síst má minna á Vísindadag Reykjalundar sem fram fer föstudaginn 18. nóvember.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka