28.10.2022

Föstudagsmolar forstjóra 28. október 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Í gær var alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar og vil ég nota þetta tækifæri og óska iðjuþjálfum hér á Reykjalundi, sem og okkur öllum, til hamingju með daginn. Iðjuþjálfun skipar stóran og mikilvægan sess í endurhæfingarþjónustu og því er vel við hæfi að gestahöfundur molanna í dag sé Bára Sigurðardóttir, forstöðuiðjuþjálfi.
Á myndinni sem fylgir eru iðjuþjálfarnir Edda Björk Skúladóttir og Dagný Þóra Baldursdóttir að kynna alþjóðlegan dag iðjuþjálfunar í gær.

Áður en þið hefjið lestur pistilsins vil ég minna á að nóvember verður gjaldfrjáls fyrir okkur starfsfólk í mötuneyti Reykjalundar, sem vonandi verður kærkomið. Jafnframt minni ég á fyrirlestur Ölmu D. Möller landlæknis, kl 12:15, miðvikudaginn 2. nóvember í samkomusalnum þar sem hún ætlar að ræða við okkur starfsfólk Reykjalundar um Covid faraldurinn á Íslandi og hvernig til tókst.

Munið að njóta lífsins og góða helgi!

Bestu kveðjur
Pétur


Dagur iðjuþjálfunar:
Við upphaf vetrar minna iðjuþjálfar á sig með alþjóðlegum degi iðjuþjálfunar sem ár hvert er þann 27. október, þema dagsins í gær var „Tækifæri + Val = Réttlæti.“  Tengt deginum voru iðjuþjálfar á Reykjalundi með kynningu á sínu starfi og dreifðu fróðleiksmolum um húsið.

Meistaranám:
Það er gaman að geta sagt frá áhuga iðjuþjálfa á meistaranámi. Í haust hófu nám þær Ásta Margrét Jónsdóttir, Herdís Halldórsdóttir og Erica do Carmo Ólason, annars vegar í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri  og hins vegar  í iðjuvísindum við European Master of Science in Occupational Therapy í Amsterdam. Er þetta í fyrsta skipti sem íslenskur iðjuþjálfi sækir  „euromaster“ námið og vonandi eiga fleiri eftir að feta í þau fótspor.
Fyrir skömmu lauk Hrefna Óskarsdóttir námi  í heilbrigðisvísindum og Steinunn B. Bjarnarson vinnur nú að rannsóknaráætlun tengt sínu meistaranámi.

Starfsdagur iðjuþjálfa - nýsköpun:
Starfsdagur iðjuþjálfunar á Reykjalundi er í dag,  þar mun Ósk Sigurðardóttir iðjuþjálfi og framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra vera með Lean vinnusmiðju varðandi hlutverk iðjuþjálfa, virði og sóun.
Ósk er kennari í nýsköpun við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri og er frumkvöðull, eigandi og stofnandi smáforritsins TravAble, sem skráir aðgengi um víða veröld. Hún hefur verið hvatning fyrir aðra iðjuþjálfa í að sinna nýsköpun og Hrefna Óskarsdóttir hefur í hjáverkum verið að þróa smáforritin Iðjuseðil og Úrræðabanka og fékk úthlutað styrk frá Heilbrigðisráðuneyti til gæða- og nýsköpunarverkefna í heilbrigðisþjónustu árin 2021 og 2022.
Nýjasta nýsköpunin er hlaðvarpið hennar Dagnýjar Þóru Baldursdóttur sem mun verða sett í loftið fyrir 15. nóvember n.k. og heitir Iðjuvarpið, um það segir Dagný: „Hlaðvarp með iðjuþjálfa um iðjuþjálfun.  Tilgangur hlaðvarpsins er að varpa ljósi á og kynna störf iðjuþjálfa. Talað verður við iðjuþjálfa bæði á persónulegum nótum og út frá þeirra áhugasviði, menntun og þekkingu. Starfsvettvangur iðjuþjálfa er mjög fjölbreyttur og langar mig að deila með hlustendum áhugaverðum og spennandi hlutum sem iðjuþjálfar eru að fást við.“

Hvet alla til að hluta á Iðjuvarpið, með von um góðar stundir.

Bára Sigurðardóttir
Forstöðuiðjuþjálfi

Til baka