21.10.2022

Föstudagsmolar forstjóra 21. október 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Taktu frá þessa daga í desember!
Nú eru bara 64 dagar til jóla og sjálfsagt allir komnir á fullt í jólaundirbúningnum. Líklegast er svo ekki - en án gríns er ágætt að þið tekið eftirfarandi dagsetningar frá:
Árlegur jólafundur Reykjalundar verður í hádeginu miðvikudaginn 14. desember og verður hann aftur með hefðbundnu sniði eins og var fyrir Covid.
Reykjalundur býður svo öllu starfsfólki í jólamat í hádeginu fimmtudaginn 15. desember.
Jólaball fyrir starfsfólk, börn og barnabörn verður seinni partinn fimmtudaginn 15. desember.
Starfsmannafélagið okkar verður svo með spennandi skreytingakeppni sem verður kynnt þegar nær dregur. Endilega takið þessar dagsetningar frá.

Landlæknir í heimsókn 2. nóvember
Svo við förum nú aðeins nær okkur í tíma, þá er gaman að segja frá því að  Alma Möller, landlæknir, mun heimsækja Reykjalund miðvikudaginn 2. nóvember. Hún mun funda með framkvæmdastjórn og fleirum auk þess að fara í skoðunarferð um húsið.
Í hádeginu mun hún flytja fyrirlestur þar sem allt starfsfólk er velkomið. Í fyrirlestrinum hún fara yfir hvernig okkur hér á Íslandi tókst til í Covid faraldrinum. Þar sem við hér á Reykjalundi tengjumst ferlinu með ýmsum hætti og erum meðal annars ennþá að vinna með sjúklingum sem glíma við langvarandi einkenni Covid, veit ég að erindið verður mjög áhugavert.

Hugsanir hafa vængi
Í þessum molum mínum hef ég stundum minnst á bækur eða námskeið sem mér finnst áhugaverð. Eftir að hljóðbækur komu til sögunnar hef ég tekið eftir að ég kemst yfir miklu fleiri bækur á hverju ári, enda finnst mér mjög gaman að hlusta á skemmtilegar bækur þegar ég fer út að ganga (sem ég geri reglulega). Þessa vikuna hef ég verið að hlusta á mjög áhugaverða bók sem mig langaði að benda ykkur á. Það er bókin „Hugsanir hafa vængi“ eftir Konráð Adophsson. Ýmislegt áhugavert er þar að finna en kynningin á bókinni er ágætis lýsing á innihaldinu:

Konráð Adolphsson, stofnandi Dale Carnegie á Íslandi, kemur hér með sérlega áhugaverða sjálfshjálparbók sem er uppfull af góðum ráðum. Konráð telur hugsanir okkar hafa mjög mikil áhrif á líf okkar og framkvæmdir. Þær hafi áhrif á hvernig við tölum, viðhorfum okkar, ákvörðunum og tilfinningum. Hegðun okkar og samskipti byggjast á hugsunum okkar en við höfum val, hvort þær eru jákvæðar eða neikvæðar. Fyrst þurfum við að skilja þennan gífurlega kraft að baki hugsuninni, sem tengist árangri okkar í lífinu.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum góðrar helgar!
Myndin með molunum í dag er skemmtileg mynd úr sögu Reykjalundar.

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka