10.10.2022

Föstudagsmolar forstjóra 7. október 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Mötuneyti Reykjalundar gjaldfrjálst í nóvember fyrir starfsfólk!
Það er gaman að byrja molana í dag á því að tilkynna að nóvembermánuður verður gjaldfrjáls mánuður í mötuneytinu fyrir okkur starfsfólk. Það hefur verið hefð hér á Reykjalundi undanfarin ár að vera einstaka sinnum með gjaldfrjálsan mánuð í mötuneytinu fyrir okkur. Síðustu tvo ár, meðan Covid var að hrella okkur fór þetta töluvert úr skorðum en við leyfum okkur að trúa að það trufli okkur ekki mikið meira. Vonandi náið þið sem allra flest að njóta mötuneytisins í nóvember.

Bleikur dagur á Reykjalundi föstudaginn 14. október
Eftir slétta viku, föstudaginn 14. október, verður Bleikur dagur hér á Reykjalundi. Bleikur október er átak á vegum Krabbameinsfélagsins þar sem félagið hvetur landsmenn til að bera bleiku slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu. Við hér á Reykjalundi tökum heilshugar þátt í þessu, ekki síst Bleika deginum, rétt eins svo mörg önnur fyrirtæki og stofnanir.
Eldhúsið mun galdra fram bleikar hressingar fyrir okkur á föstudaginn og vil ég hetja ykkur öll til að klæðast bleiku þennan dag. Þó það sé gaman og mikilvægt að gleðjast er jú aðalatriðið að sýna stuðning með þeim konum sem greinst hafa með krabbamein. Við munum svo birta nokkrar myndir frá bleika deginum á innri-síðu og  facebook-síðunni þannig að þið megið endilega vera dugleg að senda mér bleikar myndir frá ykkar starfsstöðvum.

Gleði, gleði í október
Talandi um gleði og gaman. Þá langar mig að senda þakklætiskveðjur á stjórn starfsmannafélagsins okkar sem boðað hefur til mikillar hátíðar á fimmtudaginn í næstu viku. Þá ætlum við starfsfólk að skella okkur saman pílukast og almenna gleði í lok vinnudagsins. Þátttaka er ljómandi góð þannig að þetta verður eitthvað! Meðfylgjandi mynd var einmitt tekin nú í hádeginu þegar heilsuþjálfararnir okkar voru að byrja undirbúa sig fyrir pílukastkeppnina en þeir ætla sér sigur. Góð næring er þar undirstaða.
Jafnframt er búið að endurvekja aftur Kvennaferð Reykjalundar sem er löng og skemmtileg hefð sem féll niður í Covid-inu. Undirbúningsnefnd hefur nú boðað ferðina 29. október og vil ég hvetja gjaldgenga aðila úr okkar hópi til að skrá sig og taka þátt.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka