23.09.2022

Föstudagsmolar forstjóra 23. september 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Staða mála í málefnum starfsendurhæfingar
Málefni starfsendurhæfingarteymis Reykjalundar hafa verið til umfjöllunar undanfarið. Forsagan er sú að í sumar var undirrituð framlenging á þjónustusamningi Reykjalundar og Sjúkratrygginga Íslands um þverfaglega endurhæfingu. Ein af breytingunum sem gerð var á samningnum var að samkvæmt einhliða ákvörðun heilbrigðisráðuneytis var hlutanum um starfsendurhæfingarteymi Reykjalundar sagt upp. Nú er að ljúka sex mánaða uppsagnarfresti og verður meðferðarteymið formlega lagt niður í lok næstu viku (30. september) þó nokkrir þjónustuþegar okkar munu fá að klára sína meðferð fram að áramótum. Reykjalundur hefur áður kynnt að engum starfsmanni verði sagt upp vegna þessa. Einhverjir hafa hætt af sjálfsdáðum en aðrir þáðu boð um önnur störf hér á Reykjalundi. Eins og þeir sem fylgst hafa með umræðunni þekkja, er þessi breyting ekki í þökk starfsfólks, framkvæmdastjórnar eða stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf., þar sem hún virðist helst byggjast á skilgreiningum á orðalagi en samkvæmt skýringum sem hafa borist úr ráðuneytinu er ástæðan sú að “starfsendurhæfing” falli ekki undir heilbrigðisráðuneyti og því greiði ráðuneytið og Sjúkratryggingar ekki slíka þjónustu lengur. Þeir sem þekkja vel til málaflokksins undrast þessa einföldun og málflutning. Síðan uppsögnin var tilkynnt hefur verið fundað með fulltrúum Sjúkratrygginga, ráðuneyta, ráðherrum og VIRK, svo helstu aðilar séu taldir.
Því miður hefur það litlu skilað hingað til – allir sammála um að þjónustan þurfi að vera til staðar en enginn virðist vera aðilinn til að greiða fyrir hana. Ákveðnum kafla í sögu Reykjalundar og þar með starfsendurhæfingar í landinu virðist vera að ljúka. Ég vil þó binda vonir að við nánum samningum við stjórnvöld um eitthvað form heilbrigðistengdrar starfsendurhæfingar hér á Reykjalundi á næstunni og ekki síður að fljótlega verði hægt að kynna hvaða úrræði í samfélaginu taka við þeim þjóðfélagshópi sem starfsendurhæfingarteymi Reykjalundar hefur verið að þjóna, en það er alveg óljóst á þessari stundu.

Fundir með teymum – fjöldi meðferðardaga það sem eftir er ársins
Tekjur okkar hér á Reykjalundi byggja á þjónustusamningi við Sjúkratryggingar þar sem samið er um lágmarksfjölda um fjölda meðferðardaga og sjúklinga sem við sinnum. Þessum dögum og sjúklingum er svo dreift niður á meðferðarteymin yfir árið.
Í vor fundaði framkvæmdastjórn með fulltrúum allra meðferðarteyma um þau viðmið sem hvert teymi þarf að sinna á árinu.  Nú þegar rúmir 3 mánuðir eru til stefnu af árinu er komin tími til að skoða stöðu mála aftur og gera áætlanir um hvernig hvert teymi ætlar að ná sínum markmiðum út árið.
Við í framkvæmdastjórn ætlum að taka upp einfaldara fyrirkomulag fyrir okkur öll til að fylgjast með gangi meðferðardaga og fjölda sjúklinga þannig að strax verði hægt að bregðast við ef hnökrar koma upp í einhverju teymi. Ég vildi upplýsa ykkur um að við munum á næstunni boða öll meðferðarteymin til funda þar sem farið verður yfir stöðu mála hjá hverjum og einum en einnig verður áhugavert að heyra af gangi mála í öðru starfi í teymunum. Hlakka til að hitta ykkur.

Vöfflukaffi með Hleinarfólki
Að lokum er gaman að segja frá því að í gær var skrifstofu Reykjalundar boðið í vöfflukaffi inn á vinnustofu Hleinar. Það var mikið fjör þegar ég kíkti við og vöfflurnar brögðust vel.
Myndin með molunum er einmitt frá vöfflukaffinu og vil ég nota tækifæri og þakka kærlega fyrir boðið og senda bestu kveðjur til íbúa og starfsfólks á Hlein.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka