16.09.2022

Föstudagsmolar 16. september 2022


Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þó haustið sé komið hefur veðrið aldeilis leikið við okkur undanfarna daga. Vonandi hafið þið náð að njóta sem best.
Í blíðunni í gær fór til dæmis glæstur hópur héðan að Reykjalundi í ljómandi fína gönguferð á Reykjafell undir stjórn Steinunnar heilsuþjálfara. Ég fékk að slást í hópinn og þakka kærlega fyrir skemmtilega ferð og samveru.

Annars koma hér koma föstudagsmolar dagsins sem fjalla um mikilvægi markmiðasetningar en gestahöfundur í dag er Guðrún Valdís Sigurðardóttir, hjúkrunarstjóri í innskriftarmiðstöð og hjúkrunarfræðingur í efnaskipta- og offituteymi.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur
Pétur


Föstudagsmolar 16. september 2022

Mig langar aðeins að fara hér í hvað er mikilvægt að setja sér markmið. Markmið koma okkur nefnilega yfirleitt miklu lengra og það er oft best að vera í keppni við sjálfan sig. Markmiðin þurfa auðvitað að vera skynsamleg því annars eru miklar líkur á að ekki verði hægt að fylgja þeim eftir. Þegar fólk kaupir sér kort í ræktina er það oft duglegt fyrsta mánuðinn og svo oft farið að styrkja líkamsræktarstöðvarnar á hverjum mánuði. Það er því sniðugt að setja sér markmið að fara ákveðið oft í mánuði og svo ertu markvisst að vinna að því að ná þessu markmiði. Góður vani er að merkja á dagatal í hvert sinn sem maður fer í sína hreyfingu því það er hvatning. Ég er með það markmið núna að fara að minnsta kosti á á 52 fell eða fjöll á þessu ári, það er eitt á viku. Ég setti mér þetta markmið um páskana og er komin upp í 50 og er því búin að setja mér nýtt markmið sem er 70 fell á árinu. Þar sem ég er að æfa er komin sá vani að maður merkir við sig á töflu í hvert sinn sem maður mætir. Þetta hvetur og maður reynir að komast sem hæst í hverjum mánuði. 

Við starfsmenn hér á Reykjalundi erum í miklu mæli að setja markmið með okkar fólki og þurfum því alltaf að hafa í huga að þau séu raunhæf og þannig framsett að þau gagnist viðkomandi og hann nái að fara eins mikið eftir þeim og hægt er. En það þarf að hafa ýmislegt í huga þegar maður setur sér markmið og aðstoðar fólk við það. Markmiðin þurfa að vera sértæk, ef þau snúa til dæmis að hreyfingu, þá hvernig hreyfingu. Einnig þurfa þau að vera mælanleg, eins og ákveðin vegalengd eða ákveðinn tími. Mikilvægt er að þú sért að þessum markmiðum fyrir sjálfan þig en ekki einhvern annan. Gott að setja sér tímamörk, skrifa niður markmiðin sín og hafa þau sjánaleg. Það er ekki nauðsynlegt að setja sér markmiðið í byrjun árs, það er hægt að byrja hvenær sem er og má að sjálfsögðu ekki vera of mikil pressa heldur. 

Að lokum hvet ég alla til að setja sér markmið núna á haustmánuðum. Ég er ein af þeim sem elska haustið, þá ertu ekki með eins miklar kröfur og væntingar og á sumrin hvað gott veður varðar og nýtur þess oft miklu betur að vera úti í náttúrunni. Fyrir utan það að þetta árið er haustið búið að byrja mjög vel. 

Bestu kveðjur,
Guðrún Valdís 

Til baka