Föstudagsmolar forstjóra 9. september 2022
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Dagur sjúkraþjálfunar
Í gær var alþjóðadagur sjúkraþjálfunar haldinn hátíðlegur víða um heim. Á þessum degi vekja sjúkraþjálfarar athygli á starfi sínu með ýmsum hætti. Heimssamband sjúkraþjálfara gefur árlega út þema dagsins og að þessu sinni var hann tileinkaður slitgigt. Í tilefni dagsins buðu sjúkraþjálfarar Reykjalundar okkur starfsfólki að taka þátt í skemmtilegum vatnsleikfimitíma, en þjálfun í vatni er tilvalin meðferð við slitgigt og jafnframt góð forvörn. Undirritaður var einn þeirra sem þáðu boðið og hafði mjög gaman af enda finnst mér alltaf áhugavert og mikilvægt að kynnast starfseminni okkar af eigin raun eins og hægt er. Af frammistöðu fer ekki miklum sögum en nokkrar myndir frá tímanum eru komnar inn á facebook-síðu Reykjalundar.
Til hamingju með daginn ykkar kæru sjúkraþjálfarar og takk fyrir boðið til okkar starfsfólks.
Myndin með molunum í dag er frá sameiginlegum fundi sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa í gærmorgun.
Hrós til starfsfólks Reykjalundar
Í stjórnunarfræðunum er stundum rætt um að hvað við Íslendingar séu sparir á hrós og gleði og séum meira í því að kvarta og benda á það sem betur má fara.
Sjálfur mætti ég alveg sannarlega gera meira af því að hrósa því sem vel er gert og því ætla ég að grípa tækifærið því í vikunni barst okkur tölvupóstur sem er mjög fallegur og langar mig að birta hér búta úr honum. Nokkru hefur verið sleppt svo ekki sé hægt að rekja til sendanda en engu að síður tel ég að innihaldið komist vel til skila og kem hér jafnframt á framfæri þökkum fyrir hönd starfsfólks:
„Langaði að segja þér hversu mikið þakklát ég er fyrir Reykjalund. Ég var í endurhæfingu hjá ykkur síðasta vetur og þið gáfuð mér nýtt líf og svo mikla von. Ég var algjörlega heilluð af starfseminni og fékk svo mikið út úr dvölinni sem ég mun búa að ævilangt og þakka fyrir hvern dag.
Ég kynntist þjálfurunum vel og naut sundleikfiminnar í botn…
Kennararnir allir með tölu eru búnir til úr einhverju öðru en við hin, þvílík fagmennska, væntumþykja og gleði sem er að finna í öllu starfi þeirra, mig langaði að flytja lögheimilið mitt til ykkar, svo ánægð var ég.
...
Vildi bara segja þér frá hversu ánægð ég er, og ánægð með alla kennarana sem allir hafa sinn sjarma og styrkleika. Ef þið gætuð selt uppskriftina að því hvernig þið veljið starfsfólkið ykkar gætuð þið grætt á tá og fingri, því þið eruð með landsliðið!“
Nýtt meðferðarteymi á Reykjalundi - Miðgarðsteymi
Að lokum er gaman að segja frá því að nýtt meðferðarteymi hefur verið stofnsett í skipuriti Reykjalundar, Miðgarðteymi. Teymið er þverfaglegt eins og önnur meðferðarteymi Reykjalundar og lítur sömu lögmálum um daglega starfsemi eins og þau. Er skipan starfshópa í teymið í samræmi við mönnunarmódel fyrir starfsemi Miðgarðs en Miðgarður hefur ekki áður verið formlegt, sjálfstætt teymi.
Teymið hefur að mestu þegar hafið störf en framkvæmdastjórn mun senda út sérstakan kynningarpóst um teymið á næstunni, sem tekur þá formlega til starfa.
Ég vil nota þetta tækifæri og óska öllum sem tengjast Miðgarðsteyminu alls hins besta og er sannfærður um að þessi breyting verður sannarlega til að stuðla að því að gera góðan Reykjalund ennþá betri.
Góða og gleðilega helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur