02.09.2022

Föstudagsmolar 2. september 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þá er september genginn í garð og haustið farið að gera vart við sig. Hér koma föstudagsmolar dagsins en gestahöfundur í dag er Gunnar Ármannsson, stjórnarmaður í Reykjalundi endurhæfingu ehf.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur
Pétur


 
Föstudagsmolar 2. september 2022


Pistlahöfundur dagsins er lögfræðingur að mennt og hefur um ævina átt því láni að fagna að hafa þurft – (og getað sem er ekki sjálfgefið alls staðar) –  að leita til heilbrigðiskerfis sem á heimsvísu stenst samanburð við það besta í flestu tilliti. Að auki starfaði undirritaður fyrir samtök einnar heilbrigðisstéttar  og hefur um nokkur ár sinnt stundakennslu við læknadeild HÍ um ákveðna snertifleti heilbrigðisstarfsmanna við lögfræðina. Það eru þessir snertifletir sem hafa fengið mig til að hugsa nánar um nám heilbrigðisstétta. Og þegar ég geri það þakka ég forsjóninni fyrir að hafa bara þurft að læra lögfræði. Það er nefnilega þannig að heilbrigðisstarfsmenn eiga, auk heilbrigðisnámsins, að kunna heilan helling í lögfræði. 

Það er lagaskylda allra skilgreindra heilbrigðisstétta að þekkja skyldur sínar og siðareglur, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni, tileinka sér nýjungar er varða starfið og kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma. Já það er ekkert annað. Heilbrigðisstarfsmönnum Reykjalundar ber m.a. að þekkja til viðeigandi ákvæða stjórnarskrár, laga um heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmenn, sjúkratryggingar, landlækni, sóttvarnalög, lög um réttindi sjúklinga, sjúkraskrár, sjúklingatryggingu, persónuvernd, lækningatæki ofl. ofl. 

Til gamans má nefna að ef heiti einnar heilbrigðisstéttar, lækna, er slegið inn í leitarstreng lagasafns Alþingis þá kemur fram 101 tilvísun. Ef forskeytið „Lækn*“ er slegið í leitarstreng reglugerðarsafnsins þá kemur fram heiti á 252 reglugerðum. Skv. lögum um heilbrigðisstarfsmenn eiga læknar Reykjalundar að þekkja þetta allt saman. Í leitarvélum Umboðsmanns Alþingis og Persónuverndar koma fram annars vegar 104 mál hjá UA og 152 hjá Persónuvernd þar sem „læknir“ er notað sem leitarorð. Ég hef ekki gert sambærilega rannsókn fyrir aðrar heilbrigðisstéttir en lækna en hef grun um að fjöldinn fyrir þær stéttir sé líka mikill – ekki síst í því ljósi að áður en lög um heilbrigðisstarfmenn tóku gildi árið 2012 var mjög oft vísað til ákvæða læknalaga um aðra heilbrigðisstarfsmenn. Þar fyrir utan þá að sjálfsögðu gilda lög um heilbrigðisþjónustu og réttindi sjúklinga gagnvart öllum heilbrigðisstarfsmönnum. Því eiga allir heilbrigðisstarfsmenn Reykjalundar að vita að þeir eiga að veita fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. (Að vísu verða starfsmenn að hafa í huga að þetta háleita markmið verður að lesast í því samhengi að heilbrigðisyfirvöld eru ávallt að stórum hluta háð fjárveitingum til málaflokksins samkvæmt ákvörðunum löggjafans í fjárlögum hverju sinni – það þarf nefnilega að passa peninginn vel sem við eyðum í þetta háleita markmið um fullkomnustu heilbrigðisþjónustuna).

Í stuttum pistli sem þessum er aðeins hægt að stikla á mjög stóru. Ég ætla að enda þennan mola á tveimur fróðleiksmolum og einni ráðleggingu varðandi umgengni heilbrigðisstarfsfólks við þagnarskylduákvæði:
1. Elsta tilvísun í gildan lagatexta þar sem finna má orðstofninn „lækn“ í íslensku lagasafni má finna í Jónsbók frá 1281, mannhelgisbálki í Kapitula 8. Um óðs manns víg ok hversu með hann skal fara.
a. Efnislega segir það ákvæði að ef ósakhæfur maður skaðar annan mann má dæma hann til greiðslu skaðabóta „ok læknisfé“ þótt honum verði ekki dæmd refsing.
b. Á þetta ákvæði reyndi í Hrd. 1972:191 þar sem ósakhæfur maður var dæmdur til greiðslu kostnaðar brotaþola fyrir læknisvottorð, meðul og 35 læknisvitjanir á tveimur árum.

2. Sjúkraskrár. Upplýsingar í sjúkraskrá skal færa jafnóðum eða að jafnaði innan tuttugu og fjögurra stunda frá þeim tíma er þeirra var aflað. Gæta skal þess að óviðkomandi hafi ekki aðgang að sjúkraskrárupplýsingum. Ef flytja þarf sjúkraskrá á hjóli og á heimili heilbrigðisstarfsmanns gilda skýrar reglur. Persónuvernd fjallaði um fjúkandi læknaskýrslur í úrlausn sinni frá 20.12.2004 en þá kom upp mál þar sem sjúkragögn höfðu fundist á víðavangi. Skýringin var sú að læknir hafði hjólað heim til sín og tekið sjúkraskrá með sér og stungið í vasa á baki hjólaskyrtu þaðan sem þær fuku. Um þetta gaf Persónuvernd eftirfarandi leiðsögn:
„Svo viðkvæm gögn, sem hér um ræðir, er mjög varasamt að flytja á milli staða í opnum skyrtuvasa, enda er ljóst að með því skapast hætta á að þau eyðileggist, s.s. vegna vætu; að þau glatist; og að óviðkomandi fái aðgang að þeim. Séu gögnin flutt á heimili heilbrigðisstarfsmanns og geymd þar fram að næsta vinnudegi, þegar fara á með þau á aðra starfsstöð, skapast og hætta á að fjölskylda hans og vinir eða ættingjar, sem kunna að koma á heimilið, sjái gögnin.
Til að girða fyrir þessar hættur er nauðsynlegt að sjúkraskrárgögn séu geymd í læstri tösku, sem enginn getur opnað nema réttmætur vörsluaðili gagnanna, eða á annan sambærilegan hátt. Þegar farið er með sjúkraskrárgögn milli staða á reiðhjóli er og nauðsynlegt að þannig sé gengið frá tösku, sem gögn eru geymd í, að ekki sé hætta á að hún glatist.“

3. Þagnarskyldan. Það er góð regla að ef heilbrigðisstarfsmaður er í vafa um hvort eitthvað falli undir þagnarskyldu þá sé vafinn túlkaður þagnarskyldunni í vil. Þ.e. ekki veita upplýsingar ef vafi er á heimildinni. Leitið fyrst ráða hjá reyndari samstarfsmanni og eða lögmanni stofnunar eða stéttarfélags. Það verður nefnilega ekki tekið til baka ef upplýsingar eru veittar sem ekki hefði átt að veita. Það er ekki eftirá hægt að koma á trúnaði um upplýsingar þegar búið að aflétta trúnaðinum. Í flestum tilvikum á það ekki að vera mikið mál að fá úr því skorið með réttum hætti hvort aflétta megi trúnaðarupplýsingum eða ekki. Á þetta reyndi í svokölluð brjóstapúðamáli eða PIP málinu. Lýtalæknar neituðu að afhenda landlækni tilteknar persónugreinanlegar upplýsingar um sjúklinga sína sem höfðu fengið ígrædda  brjóstapúða. Þeir leituðu til lögmanns stéttarfélags síns sem vísaði málinu til Persónuverndar til úrlausnar. Af því tilefni voru haldnar tilfinningaþrungnar ræður af einum þingmanni í þingsal Alþingis sem náði ekki upp í nef sér af hneykslan vegna þeirrar ósvinnu læknanna og lögmanns stéttarfélagsins að túlka vafann þagnarskyldunni í vil og neita að afhenda landlækni upplýsingarnar tafarlaust. Niðurstaða persónuverndar varð sú að ekki mátti afhenda landlækni umbeðnar upplýsingar eins og lagaumhverfinu væri háttað.

Gunnar Ármannsson,
stjórnarmaður Reykjalundar endurhæfingar ehf.

 

Til baka