26.08.2022

Föstudagsmolar forstjóra 26. ágúst 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Fyrst af öll vil ég þakka ykkur fyrir skilning og mjög virka þátttöku í vikunni, en á mánudagsmorgun þurftum við að taka þá erfiðu en mikilvægu ákvörðun að setja aftur á grímuskyldu hér á Reykjalundi vegna tíðra Covid-sýkinga. Þessi aðgerð, rétt eins og mikil vitundarvakning um persónulegar sóttvarnir, hefur tekist vel en síðar í dag verður gefið út hvort hægt er að aflétta grímuskyldunni aftur eða við höldum henni, a.m.k. eina viku í viðbót.

Bátarnir á Hafravatni
Hér á Reykjalundi er áratugalöng hefð fyrir bátasiglingum á Hafravatni sem er hér við bæjardyrnar hjá okkur. Við Hafravatn á Reykjalundur smávægilega landspildu þar sem búið er að koma fyrir bátaskýli og lítilli bryggju. Hugmyndin er að fólki sem hjá okkur dvelur, gefist kostur á að njóta útiveru á Hafravatni og skapa skemmtilegar minningar.
Myndin með molunum í dag er einmitt tekin á góðviðrisdegi við Hafravatn í síðustu viku þar sem þær Kristbjörg, Salvör, Sif og Hildur stóðu vaktina ásamt fleirum, þegar geðheilsuteymið okkar, bæði starfsfólk og sjúklingar, nutu lífsins.

Um árshátíðina okkar
Á dögunum funduðu fulltrúar frá árshátíðarnefnd með framkvæmdastjórn þar sem farið var yfir stöðu mála vegna árshátíðar/árshátíðarferðar á næsta ári. Til stóð að fara í árshátíðarferð erlendis vorið 2023, ekki síst þar sem slík ferð var á döfinni vorið 2020 en hún féll niður vegna Covid. Eftir að hafa verið í samskiptum við nokkrar ferðaskrifstofur í vor og sumar virðist vera að við séum orðin of sein með að hleypa af stokkunum fjölmennri og ódýrri ferð vorið 2023 þar sem gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir slíkum ferðum og mjög margar þegar bókaðar. Árshátíðarnefnd lagði til að árshátíðarferð verði frestað til vorsins 2024 og haldin verði árshátíð innanbæjar vorið 2023. Eftir umræður var þessi tillaga árshátíðarnefndar samþykkt. Nefndin hefur því verið beðin bæði að hefja undirbúning árshátíðar vorið 2023 (reyna að gefa út dagsetningu í september) og árshátíðarferðar vorið 2024 þar sem dagsetningar og áfangastaðir væru kynntir með meira en árs fyrirvara. 
Við hlökkum öll til að heyra meira um árshátíðarmál!

Áslaug Arna heimsækir Reykjalund
Að lokum er gaman að segja frá því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra mun heimsækja okkur hér á Reykjalund, næsta mánudag, 29. ágúst. Hún verður þá á ferðinni hér í Mosfellsbæ og mun kíkja við eftir hádegið og kynna sér starfsemina hér hjá okkur i stuttri heimsókn.

Um leið og ég óska Mosfellingum gleðilegrar bæjarhátíðar vil ég líka senda öllum sem eiga um sárt að binda vegna hinna erfiðu atburða á Blönduósi, samúðar og stuðningskveðjur frá Reykjalundi. 
Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka