18.08.2022

Anný Lára ráðin framkvæmdastjóri Hleinar

Vorið 2020 stofnaði SÍBS sérstakt félag um rekstur endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi, Reykjalundur endurhæfing ehf. Nýja félagið er óhagnaðardrifið einkahlutafélag með sérstaka stjórn og er óháð stjórn SÍBS. Þetta félag kemur eingöngu að þeirri starfsemi sem tengist samningi Reykjalundar við Sjúkratryggingar Íslands um þverfaglega endurhæfingu. Sambýlið Hlein, sem staðsett er á lóð Reykjalundar, er rekið á sérstakri kennitölu og samkvæmt sérstökum þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands. Þar sem um tvo óháða þjónustusamninga er að ræða hefur undanfarið verið unnið að því að skilgreina með formlegum hætti skilin á milli þessara aðila og gera samning milli aðila um þá þjónustu sem Hlein kaupir af Reykjalundi endurhæfingu ehf. Ætlunin er að stofna sambærilegt félag um rekstur Hleinar þar sem komið verður á fót formlegri stjórn og framkvæmdastjóri ráðinn sem þarf m.a. til að bera reynslu af rekstri.

Í nóvember 2020 var undirritaður nýr þjónustusamningur Reykjalundar við Sjúkratryggingar um reksturinn á Hlein. Nýlunda er í samningnum að komin er fram nákvæm kröfulýsing á verksala um þjónustuna sem fylgir að miklu leyti kröfulýsingu hjúkrunarheimila. Þetta kallar á sérþekkingu auk þess sem núverandi íbúar eru að eldast og þjónustuþörf þeirra er að aukast. Við það eykst þörf fyrir hjúkrunarfræðing á staðnum og þarf slíkur aðili því að vera hluti af mönnunarmódeli. 

Vegna áðurnefndra atriða var gerð sú skipulagsbreyting fyrr í sumar að ákveðið var að leggja niður starf forstöðuþroskaþjálfa á Hlein og auglýsa eftir framkvæmdastjóra Hleinar. Hafði ráðningastofan Hagvangur umsjón með auglýsingum og ráðningaferlinu sem nú er lokið.

Mér er ánægja að tilkynna að Anný Lára Emilsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Hleinar. Anný er okkur að góðu kunn en hún hefur stýrt Hlein undanfarið ár í afleysingum.
Anný Lára er með sérfræðimenntun í hjúkrun og hefur fjölbreytta reynslu úr heilbrigðisþjónustunni. Þar hefur hún öðlast áralanga reynslu af stjórnun og rekstri, bæði sem deildarstjóri og forstöðumaður.
Við óskum Anný Láru til hamingju með framkvæmdastjórastöðuna!

Til baka