12.07.2022

Þjónustukönnun á Reykjalundi 2022, kynning á þróun, framkvæmd og niðurstöðum.

Miðvikudaginn 29. júní sl. héldu gæðastjórar Reykjalundar þær Berglind Gunnarsdóttir og Hlín Bjarnadóttir kynningu fyrir starfsfólk á þróun, gerð, framkvæmd og niðurstöðum þjónustukönnunar Reykjalundar á meðal sjúklinga. Auknar kröfur er í á heilbrigðisstofnanir hérlendis að setja fram viðeigandi gæðavísa í sinni starfsemi sem og að skila inn gæðauppgjöri í lok hvers starfsárs. Gæðastjórar hafa nú í vetur unnið að þróun gæðavísa til notkunar í endurhæfingu og er gerð þjónustukönnunar einn liður í því ferli, ásamt því að setja fram gæðavísa varðandi skipulag, ferli og árangursmat.
Í kjölfar heildarúttektar embættis landlæknis á Reykjalundi í nóvember 2019 voru stofnaðir nokkrir vinnuhópar til gæða- og umbótastarfa þar á meðal umbótarhópur um þjónustukannanir. Vinnuhópurinn skilaði af sér yfirgripsmikilli skýrslu í apríl 2021 með tillögum að aðferðarfræði og spurningabanka tengt starfseminni. Vorið 2021 sótti gæðaráð RL um og hlaut gæða- og nýsköpunarstyrk frá Heilbrigðisráðuneytinu til að þróa þjónustukannanir á Reykjalundi til framtíðar.
Gæðastjórum var næst falið að þróa og hanna þjónustukönnun á Reykjalundi til að meta upplifun sjúklinga á þeirri þjónustu, mati og meðferð sem þeir fá á meðan endurhæfingu stendur. Í framhaldi af vinnu gæðaráðs og umbótahóps um þjónustukannanir huguðu gæðastjórar að því hvaða leiðir væru færar fyrir heilbrigðisstofnanir að framkvæma slíka kannanir út frá reglugerðum um upplýsinga- og gagnasöfnun og hvaða hugbúnaður hentaði við gagnasöfnun og tölfræðiúrvinnslu. Einnig var unnið að gerð viðeigandi spurninga og framsetningu þeirra í samstarfi við gæðaráð. Hluti starfsfólks tók þátt í að rýna spurningar.
Í fyrstu umferð verkefnisins var lagt upp með forkönnun á meðal allra skjólstæðinga á dagdeildum sem útskrifuðust á tímabilinu 29. apríl til 3. júní 2022. Skjólstæðingar Reykjalundar á þessu tímabili tóku vel í framkvæmdina þar sem svarhlutfall á meðal útskrifaðra var 90,7% eða 88 manns af 97 alls sem tóku þátt. Niðurstöður könnunarinnar voru meira og minna á jákvæðum nótum varðandi flesta þætti starfseminnar. Um fjölvalsspurningar var að ræða en þátttakendum gafst einnig kostur á að koma á framfæri skriflegum ábendingum. Flestir nýttu sér þetta tækifæri til að koma á framfæri hrósi til starfsfólks og einnig að koma fram ábendingum um þætti sem bæta má í framtíðinni, Reykjalundi og þeim sem sækja þar endurhæfingu til hagsbóta.
Gæðastjórar munu halda áfram að þróa lokaútgáfu þjónustukönnunar sem hentar á húsvísu en einnig er fyrirhugað að meðferðarteymi, faghópar og flestar starfstöðvar geti nýtt sér þjónustukannanir á sínum starfstöðvum til að meta upplifun sjúklinga á þjónustu, árangri, öryggi og gæðum.
Reykjalundur þakkar þeim aðilum sem þegar hafa lagt hönd sinn á plóginn í þessu verkefni sem vonandi mun vaxa og dafna samhliða annarri starfsemi á Reykjalundi.
Meðfylgjandi myndir eru hluti af kynningu gæðastjóra.

Til baka