10.06.2022

Föstudagsmolar forstjóra 10. júní 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Eyjafjallajökull sigraður!
Á dögunum slógust ég og Inga konan mín í för með vöskum hópi nokkurra starfsmanna hér á Reykjalundi og fylgifiska, sem gengu á hinn merka Eyjafjalljökul. Var ferðin undir stjórn Steinunnar íþróttakennara en fararstjórar voru hinir mögnuðu Fjallbræður héðan úr Mosfellsbænum, Ævar og Örvar Aðalsteinssynir. Það var ljómandi blíða og allt gekk eins og í sögu en því miður var þoka efst uppi svo lítið viðraði til útsýnismyndatöku þar. Við sáum þó vel yfir Suðurland á leiðinni; yfir mest af Laugavegsvæðinu, Fljótshlíðina og Vestmannaeyjar svo eitthvað sé nefnt.
Ljómandi ljúfur og skemmtilegur dagur til að njóta lífsins – frábært framtak á skemmtilegum vinnustað - Takk fyrir mig!
Myndin með molunum í dag er einmitt af gönguhópnum glæsilega uppi á Eyjafjallajökli.

Regína rokkar með Reykjalundi!
Mig langar að minna á sumarhátíðina okkar hér á Reykjalundi sem fram fer í hádeginu næsta miðvikudag, 15. júní. Dagskráin er á þá leið að kl 11:15 -12:30 býður Reykjalundur öllu starfsfólki og sjúklingum til hádegisverðar með hátíðarbrag í matsalnum. Ég vil vinsamlegast biðja alla um að reyna eftir fremsta megni að koma tímanlega fyrir kl 12:30 svo hægt sé að ganga frá matsalnum fyrir seinni hluta hátíðarinnar. Kl 12:45-13:25 bjóðum við upp á dagskrá í íþróttasal Reykjalundar þar sem starfsfólk sem látið hefur af starfi síðasta árið verður heiðrað með formlegum hætti. Síðast en ekki síst mun stórsöngkonan Regína Ósk syngja nokkur létt og skemmtileg lög til að koma okkur öllum í gott sumarskap.
Rétt er að minna á að dagskrá í íþróttasal lýkur rétt fyrir kl 13:30 og ekki gert ráð fyrir að meðferðastarf hefjist eftir hádegi fyrr en kl 13:30 svo allir geti notið dagskrárinnar.
Hlakka til að sjá ykkur á miðvikudaginn!

Takk fyrir góðar móttökur 
Síðustu vikur hef ég virkilega notið þess að vera hér á Reykjalundi. Ég hef verið í þeirri skemmtilegu stöðu að fá að vera með vinnuaðstöðu á ólíkum stöðum í húsinu í stað skrifstofu minnar. Á dögunum var ég til dæmis staðsettur um nokkurt skeið hjá heilbrigðisgagnafræðingum og þessa viku hef ég verið í sjúkraþjálfun en þar mun ég einnig vera í næstu viku. 
Það er mjög gaman og fróðlegt að kynnast Reykjalundi á þennan hátt og fá annars konar innsýn í starfsemina, svo ekki sé nú minnst á hvað ég næ að kynnast ykkur betur sem ég met mikils. Í gær var ég til dæmis sérlegur aðstoðarmaður í gönguhópum 2 og 3 undir vaskri stjórn Kristínar sjúkraþjálfara og þar náði ég mjög skemmtilegu og áhugaverðu spjalli við nokkra sjúklinga okkar og þeirra skoðunum á ýmsu sem við erum að gera.
Ég mun klárlega halda þessu áfram en vil nú fá að nota þetta tækifæri og þakka kærlega fyrir mjög góðar móttökur á þeim stöðum sem ég haft starfsstöð á.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka