03.06.2022

Föstudagsmolar forstjóra 3. júní 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolar dagsins en gestahöfundur í dag er Hafdís Gunnarsdóttir hjúkrunarstjóri og formaður gigtarteymis.

Um leið og ég óska ykkur gleðilegrar Hvítasunnuhelgar vil ég minna ykkur á sumarhátíð Reykjalundar sem fram fer í hádeginu miðvikudaginn 15. júní.
Þá verður starfsfólk og sjúklingum boðið upp á ljúffengan hádegismat í matsalnum okkar. Kl 12:45 hefst svo dagskrá í íþróttasalnum þar sem starfsfólk sem látið hefur af störfum hjá okkur í Covid-faraldrinum verður kvatt af Reykjalundi með formlegum hætti, rétt eins og í fyrra. Svo tekur skemmtidagskrá með listamanni sem kynntur verður á næstu dögum – spennandi! Dagskránni verður lokið tímanlega fyrir kl 13:30 svo við biðum ykkur góðfúslega að bóka engin viðtöl, meðferðir eða fundi fyrr en kl 13:30 þennan dag svo allir geti tekið þátt í dagskránni.
Góða helgi!

Bestu kveðjur
Pétur


Ég var með sonardóttur minni í bíl um daginn og við fórum í leik. Önnur hugsaði einhvern hlut eða persónu/dýr og hin reyndi að finna út með spurningum hvað hún hafði hugsað sér. Oft var mín fyrsta spurning hvor þetta væri hlutur eða eitthvað lifandi.   Það var gaman að fylgjast með henni þegar hún var að átta sig á spurningunni og finna út hvort eitthvað væri lifandi eða ekki.  Er blóm lifandi?  Er bíll lifandi? Hvað þýðir að vera lifandi?

Í framhaldi af þessu hef ég oft hugsað hvernig mér takist að lifa lífinu lifandi.
“Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil.” (Björn Jörundur) og “Lífið er yndislegt” (Hreimur Örn)
Þessar línur sem koma oft upp í hugann minn þegar ég er að gera eitthvað skemmtilegt og mér líður vel.
En geri ég það sem ég vil eða læt ég einhvern/eitthvað annað stjórna því hvernig ég lifi mínu lífi?

Það er oft sem mér finnst ég ekki alveg stjórna tíma mínum sjálf þar sem ég hef margt fólk í kringum mig og aðrir skipuleggja viðburði, afmæli og fl. sem mér er boðið í.  En það er mitt val að fara og gera.  Ég get sagt já eða nei. Ósköp væri lífið snautt ef ég segði alltaf nei. Það að geta sagt já við góðu boði og fá að njóta með öðrum gerir lífið yndislegt.

Fyrir rúmri viku síðan áttu starfsmenn innan hjúkrunar á Reykjalundi skemmtilega og kærkomna stund saman.  Við hittumst í Mýrarkoti, nutum þess að vera saman og fengum m.a. fræðslu og góðar umræður undir forystu fyrrverandi starfsmanns Reykjalundar, Þóru Hjartardóttur hjúkrunarfræðings. Þar var m.a. sungið “Lífið er yndislegt.”

Sumarið er að skella á og hitastigið hækkar. Sú tilfinning að fara út á peysunni eða bolnum (ekki úlpu) eftir langan vetur er eitthvað svo mögnuð.  Þegar ég get setið út og borðað, t.d. hér á Reykjalundi færir mér yndislega tilfinningu.  Það gera einnig fuglarnir sem eru á vappi í kring og syngja, að ég tali nú ekki um tjaldinn sem hefur fundið sér skjól við Reykjalund.
Það styttist í sumarleyfi hjá okkur og sumarlokun.  Okkur er gert að vera með fullan sjúklingafjölda nánast fram að lokun.  En það eru víst fleiri en við sem viljum nota sumarið með okkar nánustu og njóta þessa að vera í fríi. Þess vegna er það ákveðin krossgáta að halda réttum fjölda á hverjum tíma. Oft gengur gátan upp en stundum gerir hún það ekki og nú á eftir að koma í ljós hvernig til tekst.

Búið er að ráða í stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar og býð ég Ólöfu Árnadóttur hjartanlega velkomna.  Það er gaman að segja frá því að hún gaf sér tíma, á fyrsta degi sínum á RL, til að vera með okkur á aðalfundi hjúkrunarráðs og einnig að borða með okkur í Mýrarkoti. Það eru spennandi en væntanlega krefjandi tímar framundan og þess vegna er nauðsynlegt að lifa og njóta.
Góðar stundir.

Hafdís Gunnarsdóttir

Til baka