27.05.2022

Föstudagsmolar forstjóra - 27. maí 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Heilbrigðisráðherra heimsækir Reykjalund á mánudag
Mánudaginn 30. maí, mun Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra heimsækja okkur hingað á Reykjalund. Hann mun funda með framkvæmdastjórn og stjórn Reykjalundar endurhæfingar ehf. þar sem við munum kynna starfsemina og ræða um ýmis hagsmunamál okkar gagnvart stjórnvöldum.
Síðan er ætlunin að bjóða honum í stutta skoðunarferð um húsið en við getum skiljanlega ekki komið við á öllum stöðum þó það væri sannarlega gaman. Ég mun síðar í dag upplýsa viðkomandi stjórnendur hvenær við erum væntanleg inn á þeirra deildir en ykkur er auðvitað velkomið að heilsa upp á ráðherrann ef þið rekist á okkur í skoðunarferðinni.

Sumarhátíð Reykjalundar verður 15. júní
Fyrr í vetur var kynnt að Reykjalundur myndi blása til sumarhátíðar í ár rétt eins og í fyrra. Í fyrrasumar, nánar tiltekið þann 16. júní, hélt Reykjalundur skemmtilega sumarhátíð fyrir starfsfólk og sjúklinga. Hátíðin var í hádeginu og hófst á því að öllum var boðið upp á ljúffengan hádegisverð með ljómandi fínum eftirrétti. Strax eftir matinn var svo boðið upp á skemmtiatriði í íþróttasalnum þar sem enginn annar en Ari Eldjárn steig á stokk og skemmti okkur. Jafnframt heiðruðum við starfsmenn sem látið höfðu af störfum mitt í öllu Covid fárinu og ekki hafði verið unnt að heiðra fyrr.
Nú hefur verið ákveðið að hátíðin þetta árið fari fram í hádeginu miðvikudaginn 15. júní, með mjög svipuðum hætti og í fyrra.
Þetta verður allt kynnt vel og rækilega þegar nær dregur en endilega takið daginn frá.

Fagráð komið á fullt
Að lokum er gaman að segja frá því að fagráð Reykjalundar í nýju fyrirkomulagi er komið á fullt í sínum störfum. Í vikunni átti ég góðan fund með þeim um mjög mikilvægt atriði í starfseminni. Það eru sannarlega mörg og flókin málin sem þau munu fá til umsagnar en umfangsmesta hlutverkið nú er að vera forstjóra til álits um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag Reykjalundar. Í fagráði sitja Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur, formaður ráðsins, Edda Björk Skúladóttir iðjuþjálfi, varaformaður, Ásta Kristín Gunnarsdóttir sjúkraþjálfari, ritari, Elínbjörg Ellertsdóttir félagsráðgjafi, Jenný Jóhannsdóttir sjúkraliði og Theodóra Hauksdóttir hjúkrunarfræðingur. Ég þakka þeim öllum fyrir að taka að sér þetta krefjandi verkefni en nánari upplýsingar um fagráð er að finna á innri síðu Reykjalundar. Það eru einmitt meðlimir fagráðs sem prýða myndina með molum dagsins.

Góða helgi og njótið nú vel!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka