20.05.2022

Föstudagsmolar forstjóra 20. maí 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolar dagsins en gestahöfundur molanna í dag er Heidi Andersen, sjúkraþjálfari og formaður starfsendurhæfingarteymis. Hún rifjar upp skemmtileg brot úr sögu Reykjalundar og deilir með okkur draumi sem hún á.
Vonandi fáum við öll brakandi blíðu að innan sem utan þegar við njótum komandi helgar – góða helgi!

Bestu kveðjur
Pétur


Sögulegur moli!

Eitt af því sem gerir endurhæfingu á Reykjalundi sérstaka og sérstæða á landsvísu, en það fjölbreytta prógramm sem hér er boðið upp á.  Eitt af markmiðum með fjölbreyttu hreyfiprógrammi er að fólk fái tækifæri til að prófa það sem mögulega gæti nýst sem hreyfing í kjölfarið á endurhæfingunni hér. Þá skiptir máli að hreyfinginn er ekki bara gagnleg til að byggja upp þrek en að hún veiti líka vellíðan.

Segja má að mér renni blóðið til skyldunnar með efni þessa mola. Mitt áhugamál er útivera og er hestamennska þar efst á blaði.  Árið 2009 var ég svo heppin að geta samtvinnað áhugamálið við fagið sem ég hef valið mér og er auðvitað líka áhugamál! Þetta ár lauk ég réttindanámi í sjúkraþjálfun á hestbaki. Þetta hef ég svo aðeins geta notað á þá einstaklinga sem ég hef haft hér en samt allt of lítið og er ástæðan fyrir því margs konar en m.a. að þetta krefst ákveðinnar aðstöðu og meiri tíma en venjuleg sjúkraþjálfunarmeðferð. Það eru fáir sjúkraþjálfarar sem fást við þetta í dag hér á Íslandi, en vonandi breytist það smá saman.

Fyrir margt löngu síðan, svona ca. árið 1972 byrjaði hér á Reykjalundi einhvers konar vísir að þessu. Þá var hér kona starfandi sem aðstoð sjúkraþjálfara, Guðrún Jóhannsdóttir oft kennd við Dalsgarð þaðan sem hún var.  Hún bauð skjólstæðingum á hestbak á sumrin, útbjó aðstöðu girðingu/gerði hér á staðnum og var með hross frá sér og öðrum sem hentuðu í verkefnið. Lítið er til skrifað um þessa starfsemi og settist undirrituð niður með núverandi heilsusporturum og rifjaði upp þessa punkta. Í raun er það svo að heilsusportið byrjaði með þessu. Þetta varð gríðarvinsælt og voru þær fljótlega tvær sem sáu um þetta og fóru í reiðtúra hér um nágrennið eftir því hvað menn treystu sér til. Fengu allir þeir tækifæri sem vildu, að setjast á bak og jafnvel þeir sem voru í hjólastól. En þá upplifir reiðmaðurinn þessa gönguhreyfingu sem hesturinn framkvæmir á feti sem líkist gönguhreyfingu okkar og þar með er þetta líka góð líkamsþjálfun. Frelsið sem fylgir slíkri upplifun er ótvíræð og þá er ótalið allt annað t.d. útivera, samvera með hestum og fleira og því ekki skrítið að hestamenn (fatlaður eða ekki) eru ódrepandi í áhuga sínum! Nú, síðar kemur hér skúr til viðbótar við aðstöðuna þar sem geymd voru reiðtygi og slíkt. Sá skúr var fyrst nálægt þeim stað sem rafmagnsbílahleðslan er í dag en var svo færður ofar þar sem efra bílaplanið er í dag. Hélt þessi starfsemi áfram öll sumur. Árið 1998 byrjuðu framkvæmdir við byggingu nýs þjálfunarhúss og þá var aðstaðan fyrir þeim framkvæmdum. Skúrinn var fluttur niður á félagssvæði hestamannafélagsins Harðar hér í Mosfellsbæ. Þar hélt þetta áfram á sumrin 2-3x í viku og var þá keyrt á milli á bíl Reykjalundar líkt og gert er í dag þegar farið er upp á Hafravatn á báta. Berglind Inga Árnadóttir sá þá um þetta ásamt starfsmanni héðan en Berglind hafði sinnt þessu hér um nokkurt skeið. Síðasta sumarið var árið 2003 en þá var tekin ákvörðum um að láta staðar numið að sinni, flækjustigið þótti orðið of mikið, aðstaðan of langt í burtu og fleira í þeim dúr. En ég á mér draum ……… um að þetta hreyfitilboð verði aftur í boði fyrir þá sem sækja endurhæfingu á Reykjalundi. Þetta á jafn vel við í dag og það gerði „í den“, sömu rök vísindalega sönnuð.

Myndin er af nýjasta meðlimi hestahópsins míns og minnir á að framtíðin er björt og tækifærin á hverju strái.

Heidi Andersen

Til baka