19.05.2022

Reykjalundur á Degi sjúkraþjálfunar

Dagur sjúkraþjálfunar fór fram síðast liðinn föstudag í Smárabíói. Dagurinn var vel sóttur, spennandi erindi voru flutt og líflegar pallborðsumræður sköpuðust um stöðu sjúkraþjálfara í heilbrigðiskerfinu. Sjúkraþjálfarar á Reykjalundi tóku virkan þátt á mörgum sviðum, Sylvía Spilliaert var í undirbúningsnefnd, Ásdís Kristjánsdóttir, Arnbjörg Gunnarsdóttir og Erla Ólafsdóttir voru fundarstjórar. Hlín Bjarnadóttir sjúkraþjálfari og gæðastjóri á Reykjalundi flutti erindi um endurhæfingu í kjölfar veikinda eftir COVID-19 sýkingu og reynsluna á Reykjalundi. Hlín fjallaði um nýja skilgreiningu WHO á langvinnum einkennum COVID-19 og þróun klínískra leiðbeininga í endurhæfingu með áherslu á þverfaglega nálgun, þjálfun og álagsstjórnun. Einnig um endurhæfingu á Reykjalundi í heimsfaraldrinum og vísindarannsókn Reykjalundar á einkennum og árangri endurhæfingar við langvinnum veikindum eftir COVID-19 sýkingu. Mikil ánægja var á meðal sjúkraþjálfara með daginn samhliða því að 80 ára afmæli Félags sjúkraþjálfara var fagnað. Meðfylgjandi mynd er af Hlín í ræðustól.

Til baka