06.05.2022

Föstudagsmolar forstjóra 6. maí 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Sól hækkar á lofti og vorið er sannarlega komið.
Hér koma molar dagsins en gestahöfundur molanna í dag er Aðalbjörg Albertsdóttir hjúkrunarstjóri og formaður vísindaráðs Reykjalundar.

Njótið vel og góða helgi!

Bestu kveðjur
Pétur


Kæru vinnufélagar,

Ólýsanleg tilfinning!
Á Reykjalundi finn ég oft fyrir sterkri gleðitilfinningu þegar ég sé sjúklingana ná árangri. Það er erfitt að lýsa þessari góðu tilfinningu en þið vitið örugglega öll hvað ég er að tala um. Eitt ágætt dæmi er herramaður á besta aldri sem hafði fengið heilaáfall, hann kom í endurhæfingu á taugasvið og fékk meðal annars mikla talþjálfun. Einn daginn kom hann til mín og var óvenju dapur. Hann sagðist ekki hafa náð neinum árangri í tjáningu. Ég var alls ekki á sömu skoðun, sagði honum að ég sæi mikinn mun og hann skyldi endilega ræða þetta við talmeinafræðinginn. Seinna sama dag kom hann aftur til mín, ljómandi eins og sólin. Þá hafði talmeinafræðingurinn lagt fyrir hann próf sem sýndi töluvert mikla bætingu frá því að hann hóf meðferð á Reykjalundi. Mikið var gaman að fá að taka þátt í endurhæfingunni hjá þessum flotta herramanni!

Mælingar og árangur!
Í endurhæfingu þurfum við einmitt oft að styðjast við mælingar til að greina vanda og meta árangur. Við höfum aðgang að mörgum matstækjum sem hefur smá saman fjölgað. Nú er kominn tími til að yfirfara matstækjasafnið og skoða hvaða matstæki eigi heima í gæðahandbókinni og hvernig uppsetning þeirra eigi að vera. Vísindaráð, rannsóknarstjóri og gæðastjórar munu einmitt funda um matstækjasafnið í næstu viku.

Mannlegi þátturinn!
Allar heimsins mælingar geta samt aldrei komið í stað mannlega þáttarins. Samband meðferðaraðila við sjúklinga er hornsteinn meðferðar í endurhæfingu. Enda sýna rannsóknir að meðferðarsambandið er jafn mikilvægt, ef ekki mikilvægara, heldur en nákvæmlega hvaða meðferðarform er notað. Ég held að stór hluti af árangrinum sem skjólstæðingar okkar ná sé vegna þess hvað það er góður andi á Reykjalundi. Njótum þess áfram að gefa af okkur og samgleðjast sjúklingunum þegar þeir uppskera árangur endurhæfingarinnar.

Með kærri kveðju,
Aðalbjörg

Til baka