29.04.2022

Föstudagsmolar forstjóra - 29. apríl 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Nú er lífið óðum að færast í sitt hefðbundna horf eftir Covid-faraldurinn. Það er ólíkt skemmtilegra að vera á ferðinni um Reykjalund núna þegar hægt er að ferðast óheft milli staða og grímur hafa verið lagðar til hliðar, enda sér maður að brúnin á okkur flestum hefur lyfst hressilegra og lífið er bara almennt skemmtilegra.
Í morgun rak ég inn nefið hjá samstarfsfólki okkar í ræstingunni og það er vel við hæfi að þau séu á myndinni með molum dagsins í dag.

Aðalfundur Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Það að lífið sé að komast í venjulegan farveg fylgir að fundir og ráðstefnur eru farnar að færast aftur í raunheima. Í vikunni tók ég þátt í aðalfundi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) en þessi samtök fögnuðu einmitt 20 ára afmæli sínu með vel heppnuðu þingi um framtíðarsýn í velferðarmálum, samhliða aðalfundinum. Aðild að samtökunum geta átt fyrirtæki, félög og/eða samtök sem starfa við velferðarþjónustu á Íslandi og flest, ef ekki öll, fjármagna starf sitt að stærstum hluta með samstarfssamningum við Sjúkratryggingar Íslands, rétt eins og á við um okkur hér á Reykjalundi. Tilgangur samtaka sem þessara er að efla samstarf aðildarfélaga, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að bættum starfsskilyrðum. Er þetta gert með ýmsum hætti. Þó hjúkrunarheimili séu sannarlega fyrirferðamest í þessum samstökum eru þar ýmsir aðrir aðilar eins og SÁÁ, Alzheimer-samtökin og Sólheimar svo dæmi séu nefnd. Við höfum verið að máta okkur við aðild undanfarið og sjáum þar ýmsa kosti sem nýtast í hagsmunagæslu okkar, ekki síst gagnvart opinberum aðilum en eitt af markmiðunum er að stuðla að árangursríku samstarfi við stjórnvöld, sveitarfélög, félagasamtök og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta. Frekari upplýsingar um samtökin er að finna á heimasíðu SFV, samtok.is.

Samningalota við Sjúkratryggingar að fara í gang
Eins og flestir vita koma fjármunir til reksturs Reykjalundar, í gegnum þjónustusamning okkar við Sjúkratryggingar Íslands. Þar greiða Sjúkratryggingar okkur fyrir endurhæfingar á átta meðferðarsviðum, fyrir einstaklinga sem þurfa endurhæfingu og þjálfun á dagdeild eða göngudeild, í kjölfar sjúkrahúsvistar og/eða vegna tiltekinna sjúkdóma eða slysa, eins og það er orðað í samningnum. Síðasti samningur var undirritaður vorið 2020 og gilti til tveggja ára. Sá tími er nú liðinn en samningurinn var framlengdur um þrjá mánuði eða fram að sumarhléi hjá okkur hér í starfseminni. Tímann þangað til á að nota til að ræða breytingar á samningnum en undarfarið hefur framkvæmdastjórn fundað með ýmsum hópum hér innanhúss til að ræða hverju við teljum þurfa að breyta. Þar ber hæst framtíðarskipulag sólarhringsþjónustu og framtíðarskipulag á starfsendurhæfingarmálum en þar þarf að fá svör sem allra fyrst.
Viðræður hefjast í næstu viku og munum við leyfa ykkur að fylgjast með þegar mál fara að skýrast.
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu luku nýlega við stóran samning fyrir hönd hjúkrunarheimila við Sjúkratryggingar sem þau eru nokkuð ánægð með. Þó greiðslur fyrir slíka starfsemi sé allt önnur en fyrir endurhæfingu, eru ýmisleg praktísk og tæknileg atriði sem við getum örugglega fengið góðar ráðlegginar frá samtökunum, varðandi okkar samningagerð.

Hjartaendurhæfing á Reykjalundi 40 ára
Við hér á Reykjalundi erum gríðarlega stolt af okkar flotta og merka starfi. Það er því sjálfsagt að halda upp á öll merkileg tímamót. Í sumar verður sannarlega ein ástæða til þess en þá verða komin 40 ár síðan hjartaendurhæfing hófst hér hjá okkur. Auðvitað hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum tíma og ýmislegt breyst en margs er líka að minnast. Afmælisnefnd Hjartateymisins  er komin af stað með skipulagningu og hugmyndavinnu til að halda upp á tímamótin og verður það kynnt betur þegar nær dregur.

Að lokum vil ég óska okkur öllum góðrar helgar og vona ég að þið njótið öll verklýðsdagsins, þó hann sé reyndar á sunnudegi þetta árið.

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka