22.04.2022

Föstudagsmolar forstjóra - 22. apríl 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Gleðilegt sumar!

Það er vel við hæfi að fá að óska ykkur öllum gleðilegs sumars á þessum öðrum sumardegi ársins. Jafnframt þakka ég kærlega fyrir veturinn.

Að afloknu páskafríi, eða nánar tiltekið þann 19. apríl, varð mikil breyting hér hjá okkur á Reykjalundi en þá aflögðum við grímuskyldu sem síðasta skrefi í afléttingu sóttvarnaráðstafanna vegna Covid-faraldursins. Við hér á Reykjalundi höfum verið mjög varfærin í afléttingu sóttvarnaráðstafana þar sem við sinnum fjölda einstaklinga sem teljast til viðkvæmra hópa og fólks með undirliggjandi sjúkdóma og hjá okkur blandast fólk mjög mikið á ferðum sínum um húsnæðið. Áfram hvetjum við þó alla að sýna aðgát í sóttvarnarmálum og grímur verða í boði fyrir þá sem vilja/þurfa.

Þetta eru í raun merk tímamót fyrir okkur, þar sem hér á Reykjalundi hefur verið grímuskylda nánast samfleytt frá því haustið 2020. Það voru því skrítin skref fyrir marga að ganga um í byrjun vikunnar alveg grímulaus. Sérstaklega hefur maður fundið fyrir breytingunni í matsalnum okkar en þar er grímuskylda og plasthanskanotkun ekki lengur skylda og okkur starfsfólki er nú velkomið að borða í aðalmatsalnum eftir þetta langa hlé.

Ég hlakka til sumarsins með ykkur, nú eru Covid-mál (vonandi) að baki og mörg spennandi en krefjandi verkefni bíða okkar.

Gullhornið í góðar hendur!

Enn og aftur langar mig að þakka árshátíðarnefndinni okkar fyrir glæsilegt starf við að gera árshátíðina okkar að veruleika. Þessi merki viðburður tókst ljómandi vel og var mikil skemmtun, enda kannski ekki við öðru að búast þegar þessi hópur kemur saman. Mikið var lagt í skemmtiatriðin enda rosaleg samkeppni í gangi um besta atriðið. Það var sameiginlegt framlag félagsráðgjafa, talmeinafræðinga og næringarfræðinga sem sigraði og fengu þau verðlaunagripinn eftirsótta, Gullhornið, að þessu sinni. Sjálfsagt er að óska sigurvegurunum hjartanlega til hamingju og vel við hæfi að myndin með molunum í dag sé af sigurhópnum með verðlaunagripinn.

Mig langar einnig að þakka öllum sem tóku þátt í árshátíðinni okkar en félagsleg virkni og þátttaka er eitt af merkjum góðs vinnustaðar og gerir lífið auðvitað enn skemmtilegra.

Ég minni svo á aðalfund starfsmannafélagsins okkar sem boðaður hefur verið í hádeginu á miðvikudaginn, 27. apríl og vil ég hvetja sem flesta til að mæta!

Nýliðafræðsla í formlegt horf

Ábendingar hafa borist um mikilvægi þess að nýtt starfsfólk á Reykjalundi fái formlega og samræmda kynningu á helstu grunnatriðum starfseminnar og ýmsum praktískum málum. Framkvæmdastjórn hefur nú ákveðið að koma á formlegri nýliðafræðslu fyrir nýja starfsmenn sem hefja störf á Reykjalundi. Þátttakendur yrðu þá í hvert sinn þeir starfsmenn sem hafið hafa störf hjá Reykjalundi síðan síðasta fræðsla fór fram en reiknað er með að nýliðafræðslan verði tvisvar á ári. Auk þess gætu bæst við einhverjir starfsmenn sem starfað hafa lengur en það en ekki áður geta sótt skólann af einhverjum ástæðum. Umfjöllunarefni skólans væru ýmis praktísk mál sem handhægt er fyrir nýtt starfsfólk á nýjum vinnustað að vita. Bæði verður farið í almenn atriði sem snerta starf allra starfsmanna en hluti fræðslunnar verður svo sérhæfðari eftir starfsstéttum og tengist þá þeirri fræðslu sem þegar er í gangi. Mannauðsstjóra og forstjóra var falið að útfæra þetta nánar í samvinnu við ýmsa aðila og verður málið kynnt betur í vor þegar þeirri vinnu er lokið.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka